- Advertisement -

Viðskiptabankarnir gyrði sig í brók

Með nýjum Seðlabankastjóra hafi sannast að nýir vendir sópa best.

Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki, er einn af bestu ræðumönnum Alþingis, tók til máls þegar störf þingsins voru á dagskrá. Þorsteinn sagði:

„Um langt árabil hefur vaxtaokur á Íslandi verið heimilum og fyrirtækjum fjötur um fót en það hefur orðið nokkur breyting á síðustu mánuðina. Það má segja að með nýjum Seðlabankastjóra hafi sannast að nýir vendir sópa best því að meginvextir bankans hafa lækkað úr 4,5% í mars í 3% nú. Það gæti hins vegar verið stöðvun á þeirri þróun vegna þess að hingað bar að dyrum gest sem var hér landstjóri á árunum 2009–2013, þ.e. fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem lét þess getið að nú væri nóg komið. Það kemur þá í ljós við næstu vaxtaákvörðun hver raunverulega stjórnar vöxtum á Íslandi, hvort það er peningastefnunefnd Seðlabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

En það sem hefur ekki fylgt þessari þróun eru vaxtakjör viðskiptabankanna. Þau hafa sáralítið breyst og það er út af fyrir sig merkilegt vegna eignarhaldsins á bönkunum. Maður hefði haldið að þeir aðilar sem sýsla með bankana, alla vega tvo af þremur, væru sömu aðilar og lofuðu aðilum vinnumarkaðarins að hér yrði gerð bragarbót á útlánavöxtum bankanna. Það sem Seðlabankinn hefur lagt til nú þegar hlýtur því að vera brýning til viðskiptabankanna um að gyrða sig í brók og aðlaga vaxtakjör að Seðlabankavöxtum. Svo megum við ekki gleyma því að þrátt fyrir að stýrivextir séu lágir, 3%, eru þeir enn þá hinum megin við núllið í nágrannalöndunum. Það er enn þá nokkur leið að fara áður en við getum farið að hrósa Seðlabankanum í hástert fyrir stefnu hans.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: