- Advertisement -

Viðsjárvert að blanda byggðastefnu við fiskveiðistjórnun

Stjórnmál Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði, fyrir fáum dögum áí þættinum Sprengisandi á Bylgjunni og Miðjan hefur greint frá að nota eigi fiskveiðiheimildir til félagslegra úrræða og lesa má hér

Þetta stangast á við skoðanir Daða Más Kristóferssonnar hagfræðings og forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Viðfangsefni auðlindahagfræði eru vandamál sem upp koma þegar ráðstafa skal takmörkuðum náttúruauðlindum og hvernig skynsamlegast sé að nýta þær. ,,Sjávarútvegurinn er lifandi og endurnýjanleg auðlind og það sem við auðlindahagfræðingar skoðum er t.d hvernig megi nýta þessa auðlind með sjálfbærum hætti um um ókomna tíð til hagsbóta fyrir samfélagið,“ segir Daði Már Kristófersson hagfræðingur, nýráðinn forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands en hann hefur sérhæft sig í auðlindahagfræði.  Sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda sé einn af þeim forsendum auðlindahagfræðin gengur út á.

Pólitísk sjónarmið vega of þungt

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar Daði er spurður hvort nægilegt tillit sé tekið til sérfræðisjónarmiða á borð við auðlindahagfræði við stjórnun fiskveiða svarar hann að freistandi sé að segja nei. Hins vegar sé ekki hægt að neita því að Íslendingar hafi verið duglegri við það en margar aðrar þjóðir.  ,,En vissulega ættu stjórnvöld að taka meira tillit til sérfræðinga í t.d auðlindahagfræði og vistfræði hafsins þegar unnið er að stjórnun fiskveiða.“ Mikilvægt sé að viðhafa hlutlaust, vísindalegt sjónarmið þegar það er ákveðið hversu mikið má veiða úr auðlindinni. Mörg skref hafi verið tekin í þá átt, nú séu t.d  við lýði aflareglur fyrir  þorsk, loðnu, ufsa og ýsu og fleiri séu í smíðum sem sé skynsamleg þróun. ,,Auðvitað er alltaf hægt að deila um gæði reglnanna en þarna er um að ræða rétta hugmyndafræði. Ástand stofnanna og ástand hafsins er á þennan hátt lykilatriði þegar umfang veiða er ákveðið en ekki pólitík,“ segir Daði. Hins vegar sé það þó þannig að pólitísk sjónarmið vegi enn of þungt og margt í okkar löggjöf stuðli ekki að sem hagkvæmastri nýtingu auðlindarinnar. ,,Skiljanlega þarf að taka tillit til annarra sjónarmiða, eins og t.d byggðar, en það er varasamt að blanda saman atvinnustefnu eða öðrum pólitískum markmiðum við  löggjöf sjávarútvegsins.“

Kostnaður við byggðastefnuna falinn

Daði segir að þegar að byggðastefnu sé blandað á þennan hátt við fiskveiðistjórnun sé kostnaður við byggðastefnuna falinn. ,,Þegar þetta er gert veistu ekki hvað t.d. byggðamarkmiðin kosta eða hvort árangurinn réttlæti kostnaðinn. Í ofanálag getur þetta leitt til niðurstöðu sem ekki í takti við það sem stefnt var að í upphafi.“ Hægt væri að nýta auðlindir sjávar með hagkvæmari hætti en nú er gert og þar með fari arður forgörðum sem hægt væri að nýta til að fjármagna ýmsar aðrar aðgerðir af hálfu ríkisins. Daði segir brýnt  að samfélagið taki afstöðu til mikilvægis byggðastefnu í samhengi við fiskveiðistjórnun. Það sé fín lína milli þess að standa vörð um byggð annars vegar og þess að hefta eðlilega þróun atvinnulífs hins vegar. ,,Það hlýtur að þurfa að réttlæta það vandlega þegar frelsi í einni atvinnugrein er takmarkað.“ Ekki þurfi annað en að horfa til Evrópu til að sjá afleiðingar þess þegar byggðastefna ræður ferðinni við stjórnun fiskveiða. Þar sé þessi atvinnugrein óarðbær og háð styrkjum, rétt eins og landbúnaðurinn hérlendis. ,,Þegar atvinnugreinar eru þvingaðar til þess að haga rekstri sínum í takt við pólitísk sjónarmið fer arðsemin versnandi. Þessi kokteill byggðastefnu og fiskveiðistjórnunar er ekki heppilegur að mínu mati, sérstaklega ekki fyrir okkur Íslendinga sem höfum á brattan er að sækja í flestum atvinnugreinum sem ekki tengjast náttúruauðlindum. Við þurfum að velta því vandlega fyrir okkur hvort þessi blanda skili okkur bestri nýtingu á auðlindinni.“

Nauðsynlegt að kerfið sé stöðugt

Sennilega vita flestir af þeirri gjá sem hefur myndast milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi og almennings hvað varðar fiskveiðistjórnunarkerfið, og ekki síst fiskveiðigjaldið, og segir Daði það vera mjög óheppilegt. Nauðsynlegt sé að vinna að meiri sátt og fá stöðugt kerfi. Ef greinin búi ekki við stöðugleika dragi það úr hvata fyrir skynsamlegum fjárfestingum, langtímaverkefnum og þar með vexti. ,,Ef óvissa ríkir um það hvort menn fá kvóta eða ekki dregur það úr áhuga á öllum langtímaverkefnum, eins og t.d rannsóknum, vöruþróun og markaðsstarfi.“
Daði segir hins vegar eðlilegt að sjávarútvegurinn greiði fyrir aðgang að auðlindinni, hann skapi jú umtalsverð verðmæti fyrir greinina. ,,Það þýðir ekki að mér þyki núverandi gjald skynsamlegt, það hefði verið heppilegra að leita að markaðslausn varðandi gjaldtöku. Útgerðin má hins vegar ekki heyra á það minnst.“ Aftur á móti verði að skoða gjaldtökuna í samhengi við ýmsa hluti, t.d leigutíma kvótans. Því lengri sem leigutíminn sé því hærra megi  gjaldið vera. Þetta hafi hins vegar steytt á mörgum skerjum.  ,,Ég tel fyrningarleið skynsamlegri en núverandi fyrirkomulag enda hefur hún marga kosti. Menn verða samt að átta sig á því að þegar breyta á svo gömlu kerfi eins og kvótakerfið er þá þarf að gera það varfærnislega, ekki síst með tilliti til þess að mörg sjávarútvegsfyrirtækjanna eru nýbúin að ganga gegnum hagræðingarferli og hafa verið í nokkrum ólgusjó,“ segir Daði að lokum.

(Útvegsblaðið júní 2013).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: