Fleiri gagnrýndu listann á sínum tíma og ræddu við dómsmálaráðherra.
Ekki er nú lyktarlaust í horni Viðreisnar. Þingmenn flokksins eiga sín spor í dómaraskandalnum. Svo segir Davíð Oddsson í Staksteina dagsins.
Hér er upprifjun Hádegismóabóndans:
„Stundum er gott að rifja upp, jafnvel hluti, sem þegar hafa verið rifjaðir upp. Fyrir rúmu ári birtist frétt á mbl.is undir fyrirsögninni „Viðreisn stöðvaði lista dómnefndar“. Þar er vitnað í orð Hönnu Katrínar Friðriksson, sem þá var þingflokksformaður Viðreisnar, á opnum fundi þingflokksins í júní 2017: „Það vorum við sem rákum hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn.“
Þarna var Hanna Katrín að tala um lista dómnefndar yfir þá sem hún taldi hæfasta til að gegna embættum dómara við Landsrétt. Skipa þurfti 15 dómara og taldi nefndin 15 hæfa, 10 karla og fimm konur, og gaf því dómsmálaráðherra ekkert svigrúm. Sú afgreiðsla nefndarinnar og hugsanleg misbeiting á umboði sem hratt í raun þeirri atburðarás af stað, sem í gær leiddi til þess að Sigríður Andersen steig til hliðar, hefur merkilega litla umfjöllun fengið.
Fleiri gagnrýndu listann á sínum tíma og ræddu við dómsmálaráðherra, þar á meðal Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, Óttar Proppé, þáverandi formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra.
Það var sem sagt ástæða til að gera hana afturreka með listann, en engin ástæða til að styðja hana þegar við því var orðið. Þess í stað var málið persónugert í henni. Tækifærismennska eða gullfiskaminni?“
Þetta var það helsta úr Mogga dagsins.