Stjórnmál

Viðreisn vill festa kvótann í 25 ár

By Miðjan

June 20, 2020

„Við treystum markaðnum,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í Kastljósi fyrir helgi. Hún sagði flokkinn vilja markaðsleið, þannig að þrjú til fimm prósent veiðiheimilda fari á markað ár hvert. Annað var ekki að skilja á formanni Viðreisnar.

Þorgerður Katrín talaði um tengslin á milli núverandi stjórnarflokka og sjávarútvegsins sem víli og díli um hvert gjaldið á að vera. „Mér finnst það ekki gegnsætt.“

Einar Þorsteinsson, stjórnandi Kastljóss, virtist átta sig hvað Þorgerður Katrín átti við þegar hún sagðist vilja festa kvótann í allt að aldarfjórðung, til tuttugu eða tuttugu og fimm ára. Hún talaði um skammtímasjónarmið og skammtímahagsmunir. Og bætti við að fyrir útgerðina yrði þetta meiri fyrirsjáanleiki, til tuttugu eða tuttugu og fimm ára.

Ekkert kom fram um hvort þessi leið stangist á við markaðsleið Viðreisnar. Vissulega hefði verið betra ef spurt hefði verið um þessa leið. Það er að festa kvótann við núverandi kvótahafa í svo langan tíma. Formaður Viðreisnar sagði að á móti væri verið  að undirstrika að það sé þjóðin sem eigi sjávarauðlindina.