„Búvörusamningurinn er um 16 milljarðar, uppfærður kannski 18 milljarðar, ég man ekki nýjustu tölurnar í fjárlagafrumvarpinu. Með óbeinum og beinum styrkjum, þ.e. tollverndinni og fleira, eru styrkir til landbúnaðarins kannski um 35 milljarðar. Við í Viðreisn teljum og ég vil að við íhugum að setja þann styrk beint til bænda en á móti verði allri tollvernd aflétt og allar sérreglur afnumdar gegn því að þessir styrkir, þ.e. 35 milljarðar í beinum og óbeinum styrkjum í dag, renni inn í búvörusamning til bænda með skilyrði um landnýtingu. Þetta renni ekki til framleiðsluhvata heldur hafi bændur sjálfir val um hvernig þeir nýti landið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.
„Við treystum engum betur en bændum til að fara í slíka hluti. Ég tel að það væri spennandi hugsun og ég vona að Bændasamtökin og ýmsir bændur rísi ekki upp á afturlappirnar og segi nei. Eigum við ekki frekar að skoða þetta? Við í Viðreisn viljum styðja við og styrkja bændur. Ég tel að með þeim tillögum sem við erum að ræða hér og líka með því að fara í uppstokkun og breytingar á styrkjakerfinu gegn því að fyrirkomulagið verði opnað og tollverndin afnumin og styrkir settir beint til bænda í staðinn værum við komin með grundvöll sem ég held að væri þess virði að ræða upp á framtíðina, upp á nýsköpun, upp á einmitt lífsmöguleika og umhverfi bænda til skemmri og lengri tíma.“