„Meirihlutinn féll í annað sinn og er viðreistur með Viðreisn sem seldi sig fyrir nefndarlaun og stjórnarsetur í dótturfélögum borgarinnar til að fá þykkara launaumslag. Í kosningunum 2014 voru það Píratar sem voru í þessu hlutverki. Það þarf ekki fleiri vitnanna við,“ bókaði Vigdísi Hauksdóttir Miðflokki á borgarstjórnarfundi.
Vigdís er tannhvöss í bókuninni.
„Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn sagði í grein í Fréttablaðinu þann 12. maí sl. að hún væri „að laga Laugaveginn með því að gera hann að göngugötu.“ Jafnframt heyrði hún fortíðarskvaldrið óma þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar. Meirihlutinn er með hann og Sjálfstæðisflokkinn á heilanum og ef þau komast í vörn, sem er alltaf að verða algengara, þá er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Meira að segja er uppgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra upp á hundruð milljóna Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðan segir píratinn að meirihlutinn vilji minni losun gróðurhúsalofttegunda, auka samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg. Fagnaðarlætin eru eftirtektarverð þegar hún lýsir því yfir að borgarbúar völdu umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra, í síðustu borgarstjórnarkosningum. Einmitt!“