Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur hið minnsta stigið á línuna, jafnvel yfir hana. Hennar bíða mikil mótmæli og hörð viðbrögð. Ekki síst frá fólki innan Sjálfstæðisflokksins. Víst er að spennandi tímar eru framundan og óvíst er hvernig ríkisstjórn kemur út úr komandi tímum.
Veiðigjöldin er ástæðan. Þorgerður Katrín hefur ákveðið hver þau verða á næsta fiskveiðiári. Útgerðin segir þau verða allt að ellefu milljörðum. Veiðigjöld næsta árs eru miðuð við afkomu ársins 2015. Það er auðvitað ekki sniðugt, en þannig er það samt. Og það vita og vissu allir sem þurftu.
Vörnin er hafin. „Þetta hefur þær öfugsnúnu afleiðingar að veiðigjöldin munu nú samkvæmt reglugerðinni meira en tvöfaldast á milli ára samhliða versnandi afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi,“ skrifar fyrirliði varnarliðs útgerðarinnar, Davíð Oddsson ritstjóri. Mest andstaðan, við ákvörðun Þorgerðar Katrínar, mun koma þaðan.
Þar er vitnað til Heiðrúnar Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna útgerðarinnar, sem segir að hækkunin muni; „…koma hart niður á fjölmörgum útgerðum og þær eru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir gjaldinu. Hjá sumum útgerðum getur hækkunin verið allt að fjórföld.“
Hún ógnar með enn frekari samþjöppun í sjávarútvegi. Varnarbaráttan er enn sem komið er mest í Borgartúni og Hádegismóum. Valhöll þegir enn, en víst er að þar er engum skemmt.
Ákvörðun sjávarútvegsráðherra mun reyna mikið á stjórnarsamstarfið. Hvatningu mun ekki vanta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ætlast verður til að þeir komi í veg fyrir að ákvörðun ráðherrans haldi.
Viðreisn hefur gert sig gilda í tveimur málum og það á tveimur dögum. Fyrst Þorgerður Katrín með veiðigjöldin og nú Þorsteinn Víglundsson með tilraun sinni til að koma 300 íbúðum Íbúðalánasjóðs undan frá leigufélögum og tryggja þar með fjölskyldum framtið á eigin heimilum.
Hvorutveggja mun mæta andstöðu. Ekki síst frá móðurflokki ríkisstjórnarinnar.
Sigurjón M. Egilsson.