- Advertisement -

Viðreisn og Björt framtíð; takk fyrir komuna

Niðurstaða skoðanakönnunar 365 er með ólíkindum.  Vitað er að samfylgd með Sjálfstæðisflokki leikur minni flokka illa. En fyrr má nú rota en dauðrota. Björt framtíð og Viðreisn virðast ekki eiga sér viðreisnar von. Höggið er fast, það er rothögg. Eftir örfáar vikur í samstarfinu mælast flokkarnir báðuir fjarri nógu stórir til að fá þingmenn kjörna.

En hvers vegna segja kjósendur nei, við flokkana tvo? Og hvers vegna eykur Sjálfstæðisflokkurinn við sig fylgi? Eflaust eru mörg svör við þessum spurningum.

Byrjum á Viðreisn. Flokkurinn fórnaði stefnunni þegar hann gekk Sjálfstæðisflokknum á hönd. Sérstaða Viðreisnar sést hvergi. Viðreisn virkar sem dæmigerður íhaldsflokkur á íslenskan máta. Eina lífsvon helstu þingmanna og ráðherra Viðreisnar er að renna í hlaðið á Valhöll og hætta þessu sprikli. Leggja flokkinn niður. Skila sér heim. Gleyma mannalátunum. Nema þá að fólkinu takist að spýta í lófana. Sýna sérstöðu.

Björt framtíð er í vondum málum. Óttarr formaður á eftir að borga rúllugjaldið að ráðherrastólnum. Það er að kvitta upp á einkasjúkrahúsið við Ármúla. Aðrir þingmenn hafa ratað í vanda. Sjálfviljugir. Einn er á tvöföldum launum, annar tuðar undan umræðu um fátækt og svo er umhverfisráðherrann á flótta undan eigin stefnu. Möguleikar Bjartrar framtíðar eru síðri en Viðreisnar. Viðreisn getur skilað sér heim í Valhöll. Slíkt bakland á Björt framtíð ekki.

Saman hafa þessir samgrónu flokkar skapað sér þá stöðu sem þeir eru nú í. Þeim er hafnað.

Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt er önnur spurning. Auðveldasta svarið er bara það; svona eru Íslendingar.

Niðurstaða könnunarinnar er þessi:

Sjálfstæðisflokkur fengi 32,1%

VG fengi 27,3%

Píratar fengju 14,3%

Samfylkingin fengi 8,8%

Framsókn fengi 7,0%

Björt framtíð fengi 3,1%

Viðreisn fengi 3,1%

Flokkur fólksins fengi 2,7%.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: