- Advertisement -

Viðreisn hrekur Sjálfstæðisflokk í vörn

Forráðafólk Viðreisnar ætlar að forðast sögulok flokksins. Í þeim tilgangi eyrir flokkurinn engu, hið minnsta fáu. Nú er farið gegn móðurflokki ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokki, og það af þunga. Helgustu vé þess flokks eru í skotlínu Viðreisnar.

Sjávarútvegurinn er undir, sem og landbúnaðurinn og í gær bættist íslenska krónan við. Með því hefur Viðreisn hrakið Sjálfstæðisflokkinn í vörn. Engum dylst að Bjarna Benediktssyni var ekki skemmt þegar hann svaraði fyrir andlátsvottorð fjármálaráðherrans yfir krónunni. Vandi Bjarna er skýr og hann er meiri nú en áður, þ.e. áður en Viðreisn hóf eigin viðreisn.

Sjálfstæðismenn þétta varnirnar gegn tilburðum Viðreisnar. Björn Bjarnason, sem er frændi þeirra Benedikts og Bjarna af Engeyjarætt, tekur fullan þátt í vörninni. Birni lætur oft vel að skýra mál sitt. Benedikt hafði sagt tilurð Viðreisnar vera til friðar í samfélaginu.  Björn frændi hans svarar því og rúmlega það:

„„…segir hann framboð flokks síns Viðreisnar hafa verið til að stuðla að sátt í samfélaginu. Þótt þess sjáist hvorki merki í landbúnaði né sjávarútvegi þar sem ráðherra flokksins fer með forystu telur flokksformaðurinn að hann geti rétt fram sáttahönd með því að boða nú að krónan víki fyrir evrunni, sjálf krónan sé undirrót ósættis i samfélaginu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Björn hittir naglann á höfuðið. Hann telur upp hin stóru ágreiningsmál sem Viðreisn hefur upphafið. Björn veit að sókn er besta vörnin, sem er meira en virðist vera með Bjarna forsætisráðherra, sem vitnar baráttulaus í stjórnarsáttmálann. Björn er herskárri:

„Að tillaga hans um að taka upp evru stuðli að sátt í samfélaginu er í ætt við trú hans á að  tillagan um seðlalaus viðskipti skapaði sátt í baráttunni gegn skattsvikum.“

Ósáttur Bjarni Benediktsson hefur sagt þetta helst um tilburði Viðreisnar:

„Auðvitað er ekki hægt að segja í samsteypustjórn að menn séu allir beygðir inn á sömu skoðunina, en það þarf að vera alveg á hreinu að það er ekki stefna stjórnarinnar að skipta hér út gjaldmiðlinum,“ sagði Bjarni við Rúv.

Eldri kynslóðin innan Sjálfstæðisflokksins tekur aðgerðum Viðreisnar af meiri þunga  en þau yngri virðast gera. Þeir eldri ráða miklu og ef Viðreisn lætur ekki af aðgerðum sínum er víst að forsætisráðherra grípur til varnar. Hann kann að funda með Benedikt og freista þess að fá hann til að vera til friðs og ef ekki, þá, já þá getur ýmislegt gerst.

Staða Bjarna er þröng. Viðreisn er einsog hún er og sama verður að segja um hina eldri og harðari innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni er milli steins og sleggju.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: