Viðreisn hrakti dómsmálaráðherra til baka með dómaralistann
Óli Björn Kárason fellir ábyrgðina á þingmenn Viðreisnar. Þingmennirnir bera af sér sakir og iðrast að hafa trúað Sigríði Á. Andersen.
Alþingi „Í hvaða stöðu voru þeir búnir að koma dómsmálaráðherra með þeim yfirlýsingum?“ Þannig spurði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks á Alþingi í morgun, þegar rætt var um dómaraskipan Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt, og gagnrýni þingmanna Viðreisnar.
Hér átti Óli Björn við þingmenn Viðreisnar, sem sátu og studdu Sigríði í hennar ákvörðunum.
Forkostanleg vinnubrögð
„Nú er komið í ljós að hæstvirtur ráðherra virti að vettugi ráðleggingar embættismanna í Stjórnarráðinu vegna þess að hyggjuvit hennar og sérfræðiþekking segði annað. Látum það nú vera. Hitt eru forkastanleg vinnubrögð að upplýsa þingið á engu stigi máls um að verulegar efasemdir væru um vinnubrögð hennar og aðferðafræði innan Stjórnarráðsins í þessu stóra máli er varðaði skipan fimmtán dómara í nýjan dómstól,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar. „Á þingheimur að sætta sig við þetta?“
Kröfðust breytinga á listanum
Óli Björn var hvergi hættur: „Þingflokksformaður Viðreisnar lýsti því yfir á opnum fundi að þingflokkur Viðreisnar hefði hrakið dómsmálaráðherra til baka með listann með þeim skilaboðum að hann yrði ekki samþykktur. Þáverandi formaður Viðreisnar ítrekar að ekki verði samþykkt skipan í Landsrétt nema jafnræði verði á milli kynja. Svo geta menn auðvitað í pólitískum hentugleika stundarinnar í dag hagað orðum sínum með öðrum hætti og neitað að kannast við það sem sagt var hér fyrir ári.“
Óli Björn hélt áfram: „Ég vil af því tilefni rifja upp orð sem féllu á opnum fundi þingflokks Viðreisnar og haft var eftir Hönnu Katrínu Friðriksson á RÚV þar sem segir, með leyfi hæstvirts forseta:
„Það vorum við sem rákum hana [dómsmálaráðherra] til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn“ — þ.e. lista dómnefndarinnar.
Þáverandi formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sagði einnig orðrétt, með leyfi forseta:
„Við sögðum einfaldlega að listi sem uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann.“
Nú spyr ég háttvirta þingmenn Viðreisnar: Í hvaða stöðu voru þeir búnir að koma dómsmálaráðherra með þeim yfirlýsingum?“
Mikil vonbrigði
Jón Steindór er sár hvernig mál hafa þróast, finnst greinilega að hann hafi verið svikinn þegar hann stóð með Sigríði.
„Það veldur mér auðvitað mjög miklum vonbrigðum, af því að ég studdi ráðherrann í hans tillögugerð, að hann hafi brugðist svona illilega því trausti sem honum var sýnt. Það er mjög alvarlegt mál og ég tek það vissulega nærri mér að hafa stutt ráðherrann og varið hann hér í þingstól með ráðum og dáð en komast síðan að því að hún hafði ekki fyrir því að segja okkur frá því að efasemdir væru uppi frá sérfræðingum ráðuneytanna um að þær leiðir sem hún var að fara væru færar,“ sagði hann.
„Það virtist vera einróma ráðlegging hennar helstu sérfræðinga að tillaga hennar gengi ekki upp. Um það upplýsti hún ekki þingið. Þar liggur kjarni máls,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi samráðherra Sigríðar í síðustu ríkisstjórn.
-sme