Framganga borgarfulltrúar Viðreisnar hefur víða vakið athygli, innan ráðhússins og utan. Viðreisn virtist vera að landa fínum samningum þegar ávkeðið var að flokkurinn styrkti fyrri meirihluta til áframhaldandi stjórnar í Reykjavík.
Viðreisn hefur gengið í takt við meirihlutann í einu og öllu og hvergi sýnt sjálfstæðan vilja. Í Mogga dagsins er frétt þar sem segir frá flótta Viðreisnar frá sjálfu sér. Þar segir:
„Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur undrast að Viðreisn hafi ekki stutt eitt kosningaloforða sinna á fundi borgarstjórnar í gær. Sjálfstæðismenn lögðu til að sama upphæð skattpeninga fylgdi hverju barni í skólakerfinu óháð rekstrarformi grunnskólans. Þetta þýddi að ekki mætti innheimta skólagjöld.“
„Það kom mér í opna skjöldu þegar þau treystu sér ekki til að samþykkja tillöguna,“ sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, um afstöðu Viðreisnar sem hafi talað fyrir valfrelsi í skólastarfi og að nýta einkaframtakið við menntun.
Hildur segir, við Moggann, tillöguna hafa átt að tryggja börnum jöfn tækifæri til að sækja ólíka grunnskóla og leikskóla borgarinnar. Í dag þurfi sjálfstæðir leikskólar og grunnskólar að innheimta hærri gjöld en þeir borgarreknu. „Þannig verður efnahagur foreldra að ákvarðandi forsendu við skólaval. Þetta skapar misskiptingu.“