Viðreisn er pólitískur armur Samtaka atvinnulífsins
Gunnar Smári skrifar:
Regla I: Maður sem talar um lögmál í hagfræði er að ljúga. Hagfræði eru félagsvísindi með fullt af kenningum en engin lögmál.
Regla II: Þú getur tekið Þorsteinn út úr Samtökum atvinnulífsins, en þú getur ekki tekið Samtök atvinnulífsins úr Þorsteini
Í sjálfu sér er ekkert skrítið þótt Viðreisnarþingmenn skipi sér í herraðir hinna fáu gegn kröfum hinna mörgu. Viðreisn er pólitískur armur Samtaka atvinnulífsins og systursamtaka, eins og Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru pólitískur armur verkalýðshreyfingarinnar fram eftir síðustu öld. Samtök atvinnulífsins á marga arma á þingi; Viðreisn er fyrir þá fyrirtækjaeigendur sem vilja taka upp evru. Verkalýðshreyfingin á engan pólitískan arm á þingi, tengsl hennar við Alþýðuflokk og Alþýðubandalag fóru að rofna um og eftir 1970 og voru að engu orðin um 1990. Síðan þá hefur umræða þingsins færst alfarið yfir á heimavöll fyrirtækjaeigenda. Þingmenn flokka sem eiga rætur í stéttabaráttu síðustu aldar hafa fallist á að leggja niður hugtök verkalýðsbaráttu og taka upp orðfæri hinna dauðu hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Og það sama gerðist með forystu verkalýðshreyfingarinnar. Þegar sú forysta var endurnýjuð og hreyfingin endurlífguð með sínu rétt orðfæri, hrukku margir við og skyldu ekkert í sinn haus. Má þetta? Má tala um pólitík án þess að tala essaísku? Fjölmiðlafólk alið upp á tímum nýfrjálshyggjunnar fór meira að segja að tala um pólaríseringu, því leið illa yfir að allir töluðu ekki sama máli eins og verið hafði.
En hvað um það; ef umræðuefnið er verðbólguáhætta legg ég til að þingmenn snúi sér að 124 milljarða króna útlánaaukningu Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins. Eða fjárflótta íslenskra auðmanna út úr krónunni. Seðlaprentun viðskiptabanka er líklegri verðbólguvaldur en kjarnakröfur launafólks og flótti auðmanna í aðrar myntir er líklegri orsakavaldur gengisfall en kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Ef fólk hefur áhyggjur af gengisfalli og verðbólgu, ef það tal er ekki aðeins hluti af valdabaráttu, tæki fyrir hin fáu til að halda áfram kúgun á hinum mörgu.