- Advertisement -

Viðreisn: Engu skiptir hvort Íslendingar eða útlendingar eigi jarðirnar á Íslandi

„Leggjum líka mjög mikla áherslu á það að bændur sjálfir séu sem frjálsastir við ráðstöfun og nýtingu jarða sinna.“

„Ég vil undirstrika að það er farsælast að auka frjálsræði á þessu sviði,“ sagði Þorgerður Katrín, formaður Viðsreisnar, þegar Alþingi fjallaði um eignarhald á bújörðum.

„Við vitum þó að ákveðin sjónarmið eru að togast á sem hafa endurspeglast alveg ágætlega hér. Ég vil undirstrika það sjónarmið okkar í Viðreisn að það skiptir ekki máli hvort Íslendingar eða útlendingar eru eigendur jarðarinnar, heldur eigum við fyrst og fremst að beina sjónum okkar að nýtingu jarðanna. Við höfum ákveðnar áhyggjur af samþjöppuninni sem á sér stað, m.a. varðandi auðlindirnar. Löggjafinn hefur augljóslega tekið það fyrir og varað við samþjöppun auðlinda á fárra hendur, m.a. varðandi sjávarútveginn, að hún er ekki af hinu góða. Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum að skoða með mjög opnum huga,“ sagði hún.

Bændur séu sem frjálsastir

„Við leggjum líka mjög mikla áherslu á það að bændur sjálfir séu sem frjálsastir við ráðstöfun og nýtingu jarða sinna. Við sjáum að núverandi landbúnaðarstefna, hvort sem það er í mjólkinni eða sauðfjárræktinni, kallar á aukna hagræðingu og samþjöppun. Það þýðir, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að ótal jarðir verða þá reiðubúnar til annarra nota,“ sagði hún.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skekkir verðmyndun

„Svigrúm bænda til athafna verður áfram að vera til staðar. Fyrir bændur getur verið afar bagalegt að hafa miklar takmarkanir á framsali. Það skekkir verðmyndun á markaði og getur lækkað verð jarða þeirra bænda sem vilja losa sig út úr greininni. Það getur líka hjálpað bændum sem vilja komast út úr rekstri að kaupendahópurinn sé stærri. Það verður enn fremur að gæta þess að nýting á jörðunum geti tekið til fleiri þátta en hefðbundinna greina landbúnaðar.“

Verðum að hugsa á nýjan hátt

Síðan sagði Þorgerður Katrín: „Það blasir við að fjölgun starfa á landsbyggðinni verður ekki gegnum gömlu atvinnugreinarnar, alveg hreinar og klárar, sjávarútveg og landbúnað, heldur afleiddar greinar frá þessum hefðbundnu greinum eins og í gegnum ýmsa nýsköpun, þróun í gegnum ferðaþjónustubændur, skógarbændur, upplifunarbændur eins og einn bóndi sagði við mig um daginn og svo má lengi telja.

Við verðum að fara að hugsa um landið okkar með öðrum hætti en við höfum gert fram til þessa. Uppbygging á landsbyggðinni, efling jarðanna verður í nýjar greinar í tengslum við sjávarútveg og landbúnað og við verðum að veita bændum svigrúm og frelsi til athafna.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: