Davíð Oddsson hittir stundum naglann á höfuðið. Hann er jafn undrandi og margir aðrir yfir framgöngu Viðreisnar í borgarstjórninni. Hann skrifar:
„Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir um braggabruðlið að hún myndi aldrei sætta sig við þetta. Það hljómar ágætlega, en hvað þýðir það í raun? Er ekki staðreyndin sú að hún hefur einmitt sætt sig við þetta og ætlar að láta þetta yfir sig ganga?
Og ekki nóg með það, hún ætlar að sætta sig við önnur framúrkeyrslu- og óreiðumál meirihlutans í borginni.“
Þetta er úr Staksteinum dagsins í dag. Þar skrifar ritstjórinn einnig:
„Þórdís Lóa hefur sagt að það sé alveg óboðlegt að framkvæmdirnar við braggann hafi ekki komið upp á yfirborðið í pólitískri umræðu. Og að allt bendi til að ákvarðanir hafi ekki verið teknar með réttum hætti, en svo bætir hún við að hún vilji „ekki vera neinn dómari fyrr en ég sé niðurstöðuna frá innri endurskoðun“.
Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Þórdís Lóa hafnaði því að fá óháðan ytri endurskoðanda að málinu.
Hún hefur meðal annars með því hjálpað þeim sem fyrir voru í meirihlutanum, þar sem hún tók sér stöðu nýjasta varadekksins, við að þvælast fyrir því að staðreyndir málsins komi upp á yfirborðið.
Og hún hefur bersýnilega ákveðið að trúa því að borgarstjóri hafi á heilu ári aldrei verið upplýstur um stórkostlega framúrkeyrslu á skrifstofu sem undir hann heyrir.
Það er vegna þess að hún hefur ákveðið að sætta sig við allt sem meirihlutinn hefur gert.“
Það sem hér er bent á í Mogganum hafa aðrir gert áður. Ganga Viðreisnar í þessum málum er mörgum með öllu óskiljanleg. Skýringar á hvers vegna flokkurinn gerir þetta hljóta að koma fram síðar.