- Advertisement -

Viðhorf: Fá allir sneið af kökunni?

Viðhorf Þjóðarkakan hefur stækkað. Munum það. Síðasta ríkisstjórn var sögð heppin þegar hingað syntu bæði loðna og makríll í meira magni en áður. Blessuð náttúran var okkur góð. Hagur okkar tók að vaxa að loknu hinu mannlega hruni, eftir misheppnuð mannanna verk. Ísland tók að rísa á ný. Samt vorum við svo blönk að ráðist var á heilbrigðiskerfið og það gert mun síðra en nokkur maður vildi. Og annað var eftir því. Það stórsá á samfélaginu. Við aumar manneskjurnar hér á okkar kalda skeri gátum bara ekki betur.

Jæja, munum að þjóðarkakan stækkar ár eftir ár. Enn syndir loðnan til okkar og vonandi líka makríll. Við bætist að hingað koma fleiri ferðamenn en nokkru sinni. Þá reynir á. En enn og aftur ráðum við ekki við verkefnið. Við aumar manneskjurnar. Vitum ekkert hvernig við eigum að haga okkur. Eigum við að skattleggja gestina, handrukka þá hér og þar. Eða hvað?Þetta er bara of flókið fyrir okkur. En samt stækkar þjóðarkakan. Jafnvel þegar við sitjum ráðvillt hjá og vitum ekkert í okkar haus.

Myndlíkingar geta verið svo skemmtilegar. Þjóðarkakan stækkar og þau okkar sem geta hafa tryggt sér væna sneið af tertunni. Forsætisráðherra fékk sér allavega væna sneið af súkkulaðiköku. Reynum nú að vera bjartsýn.

Við auma mannfólkið á okkar kalda skeri erum með minnstu mynt í heimi. Mynt sem er í höftum og mynt sem enginn annar vill sjá. Fyrir okkur er um of að ráða ráðum okkar. Hvað með framtíðina? Eigum við áfram að vera með minnstu mynt veraldar. Treysta á að okkur gangi slíkt betur en nokkuð dæmi er um í mannkynssögunni? Vissulega eru ekki margar aðrar leiðir færar. Í stað þess að athuga málið til þrautar hefur verið ákveðið að loka á þá einu leið sem hugsanlega var fær.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flestum Íslendingum þótti sú ákvörðun óráð. Reiknimeistarar hafa reikna að krónan kostar okkur sennilega um þrjú hundruð milljarða á ári. 1.200 milljarða á hverjum kjörtímabili. Vegna hennar eru vextir allt aðrir og meiri hér en í öðrum löndum. En svona er þetta. Okkur aumu mannfólkinu hér mun trúlegast um of að hafa peningakerfi einsog aðrar þjóðir gera og fara barasta létt með. Munum samt að þjóðarkakan stækkar.

Forsætisráðherra fékk sína sneið af súkkulaðiköku með perum. Svo verum bjartsýn.

Tugir þúsunda Íslendingar vilja koma í veg fyrir að óveiddur makríllinn verði afhentur fáum. Ríkisstjórnin vill ekki flækja málið og vill fara hina þekktu leið. Það er að hafa þetta allt saman á höndum fárrra. Sjáum hvað setur.

En talandi um makrílinn og talandi um fólkið sem við kusum. Eykur það með okkur bjartsýni? Einn ráðherranna kom ekki í gegn skattheimtu á ferðamenn, barðist við vindmyllur í vonlausu náttúrupassastríði. Annar ráðherra gerði hvað hann gat til að eyðileggja Fiskistofu, sá sami var heimaskítsmát með frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, makrílfrumvarpinu verður trúlegast troðið ofan í kokið á honum, húsnæðismál félagsmálaráðherra sitja pikkföst í fjármálaráðuneytinu og eflaust er hægt að telja áfram.

Þrátt fyrir allt stækkar þjóðarkakan. Forsætisráðherrann fékk sér væna sneið af súkkulaðiköku með perum og með rjóma. Reynum að vera bjartsýn.

Hér eru verkföll. Að óbreyttu verða þau enn meiri. Yfirlæknir á þjóðarsjúkrahúsinu segir að þeirra vegna hafi orðið ótímabær dauðsföll. Sem best er að skilja þannig að verkföllin séu þegar orðin mannskæð. Þau hafa kostað mannslíf. En þjóðarkakan hefur stækkað. Okkur aumu mannfólkinu gengur bara svo illa að skipta henni á milli okkar. Þess vegna eru þessi átök um allt samfélagið. Átök sem meira að segja kosta sum okkar lífið. Þetta er hreint ómögulegt ástand.

Við munum leiðréttinguna frægu og hvernig átti að láta bévítans hrægammana borga hana. Snilldarbragð sem skilaði flokki forsætisráðherra fádæma kosningasigri. Rúm 27 þúsund kusu Framsókn árið 2009 en svo bættust 20 þúsund við vegna leiðréttingarnar, næstum 47 þúsund kjósendur kusu flokkinn vegna snilldarbragðsins, það er þess að láta erlenda hrægamma greiða niður skuldir sumra Íslendinga.

Nýjustu fréttir af ríkissjóði eru hins vegar þessar: Handbært fé frá rekstri versnaði verulega á milli ára og var neikvætt um tæpa 48,2 milljarða króna, samanborið við jákvætt handbært fé upp á 5,3 milljarða á árinu 2014. Þetta skýrist að stærstum hluta af útgreiðslum vegna leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána…“ Svo mörg voru þau orð. Leiðréttingin sem átti að koma að handan, er sem sagt sótt í sameiginlega sjóði með þeim afleiðingum, að það sér stórkostlega á ríkissjóði okkar allra.

Enn hefur okkur aumu mannfólkinu á skerinu kalda mistekist ætlunarverk okkar.

Víða er staða okkar vond. Nánast ómöguleg. Það er ekki bara að veðrið sé vont. Stjórnarfarið er ekkert betra. Því segi ég þetta. Jú meðal annars vegna þess að í nýliðinni viku birtist stór auglýsing í Fréttablaðinu með fyrirsögninni; Ertu að flytja til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar? Það er Norræna félagið, Halló Norðurlönd og Evrópsk vinnumiðlun sem auglýsa aðstoð við Íslendinga sem vilja fara frá þeirri óáran sem hér ríkir. Þrátt fyrir stækkandi þjóðarköku.

Efnt verður til funda á morgun þar sem aðstoð verður veitt hverjum sem vill, öllum sem hafa eða eru að gefast upp, og allt er ókeypis. Leiðbeiningarfundirnir fyrir landflótta Íslendinga eru semsagt ókeypis og verða í húsi Vinnumálastofnunar.

Þarna er alvaran. Fólk er að fara, fólk er kvatt til að fara. Fólk er kvatt til að leita sér að betra samfélagi, samfélagi þar sem ríkir meira jafnvægi, meira stapílitett.

Þið öll, deilendur á vinnumarkaði, stjórnmálafólk og allt annað fólk sem hefur óskað eftir að bera ábyrgð á ástandinu hér, opnið eyrun. Við erum að missa frá okkur stóran og glæstan hóp fólks sem nennir þessu rugli ekki lengur.

Í öðrum löndum er tertan til skiptanna stærri en hjá okkur. Sigmundur Davíð fékk súkkulaðitertu með perum og með rjóma. Er víst að pakksaddur forsætisráðherra skilji vanda annarra? Hvað með ykkur hin? Verður ykkur boðið að tertunni, eða á mylslan að duga ykkur?

Það er hrímkalt vor, það eru átök um allt en við eigum aðeins einn leik, reynum nú að vera bjartsýn.

(Leiðarinn úr síðasta þætti Sprengisands).

 

Sigurjón M. Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: