Ég er kominn á þann aldur að ég tala oft um fortíðina, það sem áður var og gerðist. Þegar Alþingi var að fjalla um EES-samninginn árið 1993 var ég þingfréttamaður og átti þá stundum tal við Ólaf Þ. Þórðarson, þingmann Framsóknar á Vestfjörðum, sem nú er látinn, en Ólafur var skemmtilegur og eftirminnilegur maður en ég ætla ekki að rifja það upp núna. Heldur það sem hann sagði einu sinni, og það var eitthvað á þessa leið: Sigurjón, hvað heldur þú að gerist, þegar við höfum sameinað alla Evrópu meira og minna, þegar hver vill sitt aftur. Þegar það verður atvinnuleuysi eða aðrar þrengingar. Hvað gerist þá? Verða allir vinir þá?
Eitthvað á þessa leið sagði Ólafur Þ. Þórðarson þáverandi alþingismaður. Forsætisráðherra þess tíma, Davíð Oddsson, nánast talar um þetta sama í blaði sínu í dag, meira en 20 árum síðar. Í Reykjavíkurbréfi ritstjórans segir meðal annars: „Það er ekkert rangt við það, að fólk vilji fá upplýst, hvort engu skipti fyrir það, ef annarra þjóða fólk sæki bæði hratt og í miklum mæli inn í velferðarkerfi, sem það hefur ekkert lagt til, og muni sennilega frá fyrsta degi þurfa mjög á að halda.
Það felast engir kynþáttarfordómar í slíkum spurningum. Og það hefnir sín að kæfa í fæðingu varfærnislega umræðu af því tagi. Í rauninni er illskiljanlegt að margir skuli frekar óttast ábyrga og öfgalausa umræðu um rétttrúnaðarefnin en afleiðingarnar af því að bannfæra hana.
Hún mun brjótast út, fyrr eða síðar, eins og dæmin sanna og þá er hætt við að öfgar og ábyrgðarleysi muni einmitt einkenna hana. Og engu verði lengur um þokað.“
Þetta verður hver og einn að skilja með sínum hætti. Minn skilningur er þannig að, að mér setur hroll. Mér er brugðið.
En hver er rótin að þessum skrifum. Nokkrum línum ofar sagði þetta: Margir Evrópumenn hafa á örfáum árum gerst mjög umburðarlyndir gagnvart fjandsamlegri umfjöllun um kristna trú, og virðist engu skipta hversu langt er gengið.
Er þetta málið, virkilega. Aðeins síðar segir forsætisráðherrann fyrrverandi. „Þeir sömu fara mun varlegar gagnvart öðrum trúarbrögðum. Það skerðir ekki vilja til ýkts umburðarlyndis af því tagi, þótt slíkum trúarbrögðum sé fylgt fram af miklum ofsa eða útfærsla þeirra stangist algjörlega á við viðtekin sjónarmið heima fyrir, svo sem í afstöðu til hlutverks og réttinda kvenna, sem jafnvel verða að sæta andlegum og líkamlegum hryðjuverkum í öfgafyllstu tilfellunum með vísun til trúarlegra heimilda.“
Eftir að hafa lesið þetta, og alvöruna að baki orðunum og ekki síst hver segir þetta og skrifar, held ég að þjóðin verði að bregðast við og það strax. Nú verður umræðan að breytast hratt og örugglega. Ef ekki mun, einsog segir í Reykjavíkurbréfi, umræðan brjótast út og þá munu öfgar og ábyrgðarleysi muni einmitt einkenna hana. Og engu verði lengur um þokað.
Sigurjón M. Egilsson