Benedikt Jóhannesson, sem ævinlega titlar sig sem stofnanda Viðreisnar, skrifar aldeilis fína grein í Moggann í dag. Sem oft áður. Hér að neðan er ágætur kafli úr greininni. Í sömu átt, og þar koma fram, eru viðbrögð forystu Framsóknarflokksins vegna fréttar sem Sigríður Dögg Auðunsdóttur flutti um Framsókn og flutning stofnanda út á land. Eðlileg frétt og góð.
Framsókn, sem ber mestar sakirnar í málinu, linnir ekki látum og leynt og ljóst er minnt á hvaðan Ríkisútvarpið fær peninga til rekstursins. Illa duldar hótanir dynja á Ríkisútvarpinu. Og ekki í fyrsta sinn. Stjórnmálamenn freista þess að draga úr sjálfstæði ríkisfréttastofunnar. Hafa þeir árangur sem erfiði? Veit það ekki. Ekki frekar en nokkur annar.
Þá að stofnanda Viðreisnar. Hann segir í grein sinni:
„Árið 1993 ákvað Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra að stytta rjúpnaveiðitímann, sem var umdeild ákvörðun. Ráðherrann var afar ósáttur við að starfsmaður undirstofnunar ráðuneytisins (Arnór Þ. Sigfússon) tjáði sig opinberlega um málið, reyndar ekki í krafti embættis heldur sem rjúpnaveiðimaður.
Í nefndaráliti minnihluta allsherjarnefndar Alþingis frá 1995 segir orðrétt: „Hringdi ráðherra þennan dag [á Þorláksmessu] í Arnór, minnti á að hann væri starfsmaður ráðuneytisins og sagði hann hafa farið „yfir grensuna“ í blaðaviðtalinu. Jafnframt tók ráðherra fram að þessu máli væri ekki lokið af sinni hálfu. Þetta upplýsti Arnór á fundi umhverfisnefndar Alþingis 15. apríl 1994. Fyrr þennan sama dag […] hringdi umhverfisráðherra í Pál Hersteinsson veiðistjóra og hafði uppi aðfinnslur út af viðtalinu við Arnór. Veiðistjóri bar það fyrir umhverfisnefnd Alþingis 15. apríl 1994 að hann hefði svarað ráðherra á þá leið að hann teldi þessar deilur vissulega óheppilegar. Rjúpur og rjúpnaveiði heyrðu hins vegar ekki undir veiðistjóraembættið og ekki væri eðlilegt að hann legði hömlur á málfrelsi starfsmanns síns um slíkt efni þar sem hann tjáði sig sem meðlimur í Skotveiðifélagi Íslands á vettvangi félagsins. Þá á ráðherra að hafa sagt: „Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig í þessu sambandi á framkvæmdastjóra náttúruverndarráðs sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.“
Nýlega stefndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætis- og jafnréttismálaráðherra konu fyrir dóm. Sakirnar eru þær að kærunefnd úrskurðaði að menntamálaráðherra hefði brotið jafnréttislög þegar ráðherrann réð flokksbróður sinn, félaga sem nefndin segir ljóst að ekki hafi staðið konunni framar.
Í orði talar ríkisstjórnin um jafnrétti, en þeir sem leita réttar síns hafa nú fengið aðvörun. Þeim verður mætt af fullri hörku.
Önnur ríkisstjórn, aðrir ráðherrar, en sams konar skilaboð: Ég stjórna þér. Gleðilegt sumar!“