- Advertisement -

„Við vorum bara tæklaðir“

 Neytendur  Baldur Björnsson, eigandi og framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, segir, í samtali við Markaðinn, að mörgum spurningum sé enn ósvarað um hvenær fyrst hafi farið að örla á verðsamráði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins.

Þrettán fyrrverandi starfsmenn Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins voru í byrjun maí ákærðir fyrir samkeppnislagabrot vegna verðsamráðs á árunum 2010 til 2011. Í ákærunni er tuttugu og eitt tilvik tilgreint þar sem starfsmennirnir skiptust á upplýsingum um verð á tilteknum vörutegundum.

Rannsókn málsins hófst í kjölfar kvörtunar frá Múrbúðinni, en fyrirtækin reyndu ítrekað að fá Múrbúðina í samráð. Byko og Húsasmiðjan eru sögð hafa stundað samkeppnishamlandi verðþrýsting með því að lækka aðeins verð á sama byggingarefni og grófvörudeild Múrbúðarinnar hafði á boðstólum. Verð á öðrum vörum hafi haldist óbreytt.

Baldur segist lengi hafa grunað að ekki væri allt með felldu. Hann afréð að byggja yfir verslun sína árið 2004. Baldur segir, í Markaðnum, að hann hafi fengið tilboð frá verslununum tveimur sem hljóðuðu bæði upp á á fjórðu milljón króna og munur milli þeirra ekki nema um fimmtán þúsund krónur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann segir iðnaðarmenn hafa lengi talað um að sama verð gildi í Byko og í Húsasmiðjunni.

„Iðnaðarmenn komu gjarnan í grófvörudeild Múrbúðarinnar til að fá tilboð prentuð út og fóru svo með þau í Byko og Húsasmiðjuna sem mættu tilboðunum og buðu kannski 2% lægra verð,“ segir Baldur og bætir við að þessi undirverðlagning sem fyrirtækin gátu boðið upp á sökum stærðar sinnar hafi verið það sem að lokum gekk af grófvörudeild Múrbúðarinnar dauðri.

Baldur segir að Múrbúðin hefði þurft að ná sjö prósenta markaðshlutdeild í grófvörum til að ná fótfestu og verða arðbær. Mest hafi búðin þó einungis náð 2-3 prósenta hlutdeild og það hafi ekki reynst nóg. „Eina skynsamlega aðgerðin var að loka grófvörudeildinni, enda var það aldrei ætlun Múrbúðarinnar að standa í taprekstri til að halda verðinu niðri fyrir iðnaðarmenn og verktaka sem voru í viðskiptum annars staðar,“ segir Baldur í viðtali við Markaðinn. „Við vorum bara tæklaðir.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: