Stjórnmál

„Við þurfum starfhæfa ríkisstjórn“

By Miðjan

April 19, 2024

Alþingi „Viðskiptablaðið vekur athygli á því að útgjöld ríkissjóðs halda áfram að aukast, og það verulega. Það lítur út fyrir að við verðum með heilan áratug af halla á ríkissjóði og það er í boði ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Við erum með nýja könnun sem sýnir að 70% heimila landsins, þar er ungt fólk undir og millitekjuhóparnir, segja að verðbólga og vextir hafi mikil áhrif á heimilisbókhaldið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.

Síðar sagði ÞKG:

„En hvað þýða stanslaus útgjöld? Ég held að fólk hér á Íslandi myndi sætta sig við það ef það fyndi að við værum að fá betri heilbrigðisþjónustu. Nei, við erum enn með biðlista eftir heilsugæslulæknum, eftir því að fólk með fíknisjúkdóma komist í meðferð, eftir geðheilbrigðisþjónustu, eftir hjúkrunarheimilum. Fólk myndi líka sætta sig við aukin útgjöld ef það fyndi t.d. að það væru fleiri lögreglumenn hér á landinu eða betri samgöngur. En það er ekki svo. Þessi ríkisstjórn er að senda framtíðarkynslóðum reikninginn. Hún er að setja það í hendur næstu ríkisstjórnar að leysa verkefnin. Það er það sem við þurfum, við þurfum starfhæfa ríkisstjórn sem er með meiri raunveruleikatengingu en sú sem nú er starfandi.“