Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar
„Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar,“ segir í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins, frá því dag.
„Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sára fátækt. Það veldur aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000,“ segir þar.
„Frá árinu 2007 hefur bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.
Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand. Fátækt er afleiðing skammarlegra pólitískra ákvarðana. Ekkert um okkur án okkar!“
Í greinargerð Öryrkjabandalagsins segir:
„Í rúman áratug hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og örorkulífeyri. Í fjárlögum hverju sinni er lífeyrir almannatrygginga hækkaður í samræmi við forsendur þeirra, sem eru ekkert annað en spá. Sjaldan ef nokkurn tímann gengur sú spá eftir, þrátt fyrir það er aldrei horft yfir sviðið og lífeyrir leiðréttur til samræmis við hvað raungerðist, líkt og við ákvörðun þingfararkaups, þar sem launaþróun er skoðuð fyrir næstliðið ár. Ári síðar eru lögð fram ný fjárlög, byggð á nýrri spá, og sagan endurtekur sig. Bilið breikkar og fátækt eykst.“