„Við höfum dálítið brugðist í því að innleiða hér á landi málsmeðferðartíma og málsmeðferðarreglur sem rísa undir þeim kröfum sem við gerum að öðru leyti í þessu kerfi okkar,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar hann svaraði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í Alþingi.
Sigmundur Davíð tiplar ekki á tánum í þessu viðkvæma máli: „Eins og hæstvirtur ráðherra kannski veit eru umsóknir um hæli hlutfallslega sexfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Forsætisráðherra Danmerkur hefur sagt að þar sé markmiðið með nýrri stefnu stjórnvalda að enginn komi til Danmerkur til að sækja um hæli. Danir vilja hafa stjórn á því hverjum er boðið til landsins, beina fólki í örugga lögmæta farveginn og taka svo á móti fólki sem kvótaflóttamönnum en stefnan sé að enginn sæki um hæli.
Telur hæstvirtur forsætisráðherra ekki að þetta muni hafa talsverð áhrif hér?“
Bjarni er efins um stöðu Dana: „Ég veit ekki hvort það er raunhæf stefna hjá Dönum og forsætisráðherra Dana að stefna að því að enginn sæki um.“
Formaður Miðflokksins var ekki af baki dottinn: „Styður hann að sama þjónusta eigi við óháð því hvernig menn koma til landsins? Er hann tilbúinn til að fara í þveröfuga átt við norræn stjórnvöld önnur og í raun fylgja ysta vinstrinu eins og það lítur út í þessum málaflokki nú á Norðurlöndum?“
Bjarni svaraði: „Við eigum ofboðslega mikið undir því sem samfélag að hjálpa þeim sem eru komnir til landsins og hafa fengið samþykkta stöðu sem alþjóðlegir flóttamenn eða hafa komið hingað í kvótaflóttamannaprógrammi; að því fólki takist vel til við að aðlagast samfélaginu.“