Skattgreiðendur eigi enn sem fyrr fáa vini á Alþingi.
Jón Magnússon skrifar:
Landbúnaðarráðherra fagnar því að færa meiri peninga til framleiðenda á fölskum forsendum. Mun verð á matvælum lækka við þennan fjáraustur úr ríkissjóði? Íslenskir neytendur hafa aldrei orðið varir við það. Það gengur ekki að stjórnmálamenn líti á neytendur sem annars flokks þjóðfélagsborgara. Við erum öll neytendur og með því að huga að hag neytenda huga stjórnmálamenn að þjóðarhag en ekki sérhagsmunum. Þeir ættu aldrei að gleyma því.
Sjá nánar hér:
Fæðuöryggi og fjármálastjórn.
Talsmenn hamfarastyrkja til vissra greina landbúnaðarins hamast nú sem sjaldan fyrr og halda því fram, að dæmalaus viðbrögð stjórnvalda vítt og breitt um veröldina við Covid veirunnar sýni ótvírætt, að gæta verði betur að fæðuöryggi þjóðarinnar með auknum styrkjum til ákveðinnar landbúnaðarframleiðslu.
Þessi hamagangur einangrunarsinnanna er byggður á fölskum forsendum. Þrátt fyrir að þjóðir í okkar heimshluta hafi dæmt sig í mismunandi stranga einangrun og útgöngubann, þá hefur fæðuframleiðslan ekki raskast og flutningar á matvælum og öðrum vörum ekki heldur. Matvælaöryggið var því aldrei í hættu þrátt fyrir óttablandin viðbrögð við veirunni.
Hvað afsakar þá aðgerðir stjórnvalda til að færa meiri peninga frá skattgreiðendum til ákveðinna framleiðenda í landbúnaði og ýmsum öðrum greinum vegna Covid veirunnar, eins og landbúnaðarráðherra hreykir af?
Ekki neitt.
Hvaða þýðingu hefur það síðan, að landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnin taki peninga skattgreiðenda til að greiða aukna styrki til grænmetisframleiðenda og/eða annarra framleiðenda í landbúnaði?
Mun verð á grænmeti til neytenda lækka? Var það forsenda aukinna styrkja? Ónei.
Reynsla neytenda af auknum styrkjum og beingreiðslum til framleiðenda er sú, að þeir skila sér ekki eða þá mjög óverulega til neytenda með lægra verði.
Af hverju má ekki styðja við atvinnurekstur með almennum aðgerðum eins og t.d. skattalækkunum t.d. afnámi tryggingargjalds?
Nú skiptir máli að gæta vel að því að opinberu fé sé ekki sólundað í gæluverkefni, heldur brugðist við raunverulegan vanda vegna Covid. Of margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru því miður því marki brenndar að færa fjármuni frá skattgreiðendum til þóknanlegra aðila í atvinnurekstri.
Sýnu verra er að stjórnarandstaðan hefur ekki annað til málanna að leggja en að krefjast enn meiri útgjalda úr ríkissjóði. Pólitísk yfirboð formanns Samfylkingarinnar og helsta meðreiðarsveins hans eru með því aumkunarverðara sem heyrst hefur á Alþingi.
Skattgreiðendur eigi enn sem fyrr fáa vini á Alþingi. Ætla má, að þröngt verði í búi margra þegar þjóðin þarf að taka út timburmenn óráðssíunnar.