Þetta er því stórt stéttarlegt mál að borga fólki laun meðan það menntar sig.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Það er einföld framtíðarsýn sem leysir af hólmi allar vangaveltur um það hvort meta eigi menntun til launa með því að halda láglaunafólki í gíslingu fátæktar. Fólk á að fá laun meðan það menntar sig. Þannig er menntun metin til launa. Menntafólk á ekki að þurfa að koma bugað úr námi með námslánin á bakinu. Þá er það líka á pari við fólk sem hefur verið á vinnumarkaði og ekki valið að mennta sig, eða ekki haft tækifæri til þess. Út frá þessari forsendu ætti að ríkja jafnræði milli ófaglærðra og menntafólks á vinnumarkaði hvað varðar launin.
Þá segja sumir: „En það kostar þjóðfélagið nógu mikið að mennta fólk svo við séum ekki líka að borga því laun.“ En þessi rök halda ekki vatni, því að ekki er hægt að efast um gildi menntunar. Ekki frekar en gildi kvennanna í leikskólunum sem vinna á launum sem ekki er hægt að lifa á, sem er auðvitað skammarlegt.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að menntafólk eigi ekki að fá betri laun vegna þess að mamma og pabbi eða afi og amma hafi stutt fólkið til náms. Það er auðvitað ekki svona sem hægt er að reka menntakerfið og ýtir undir þvílíka stéttaskiptingu. Flestir sem voru með mér í námi komu með námsskuldirnar með sér út í lífið og margir lent í verulegum erfiðleikum. Við erum öll jafn mikilvæg, hvort sem við erum menntuð eða ekki. Og öll eigum við að njóta jafnræðis. Ég fullyrði að ef fólk fengi laun fyrir að mennta sig þá myndi fólk sem annars hefði ekki efni á því fara menntaveginn velja að fara í eitthvert nám. Þetta er því stórt stéttarlegt mál að borga fólki laun meðan það menntar sig .