- Advertisement -

„Við eigum bara að þegja“

„Með þessi laun líður mann eins og það sé verið að refsa manni fyrir að vinna og hafa verið skattborgari alla tíð, refsa manni fyrir að eldast og veikjast.“

Fólkið í Eflingu: Mynd og texti; Alda Lóa. „Ég er bóndadóttir af Skagaströnd og hef unnið frá fæðingu eins og maður segir. 15 ára réð ég mig á undanþágu á sjúkrahúsið á Blönduósi, og maðurinn minn var enn þá yngri þegar hann réð sig í vinnu, en hann var aðeins 14 ára þegar hann fór að vinna í fiskbúð hjá Valda Putta í Reykjavík.

Hann er Reykvíkingur og ég kynntist honum í bænum þegar ég vann á Skálatúni, ég var 19 þegar við giftum okkur og fluttum á Skagaströnd og byrjuðum að búa. Á þeim tíma gátum við keypt okkur einbýlishús sem við eignuðumst á 5 árum, hús sem við gerðum upp, það var ekkert mál. Samt var hann eina fyrirvinnan, hann fór á sjóinn en ég var með börnin lítil heima, ásamt smá búskap, nokkrar kindur og hænur. Við áttum líka bíl og við gátum farið í sumarfrí í þrjár vikur með börnin sem væri ómögulegt í dag. Í þá daga voru lánin þannig að þú gast borgað þau niður sem er heldur ekki hægt í dag, þau bara hækka.

Árið 1980 fluttum við í Hjaltadal, og fórum að búa í alvöru, við vorum með allan pakkann, kýr, kindur, hesta og hænur og ég vann á veturna sem ráðskona í barnaskólanum og hann tók túr og túr á sjónum. Þetta var gaman fyrstu árin áður en kvótinn kom, áður en hann kom gátum við gert ýmislegt eins og þegar ég varð þrítug þá fórum við í mánaðar ferðalag til Ísrael, Egyptalands og til Dauða hafsins. Þetta var ferð sem við höfum lifað á lengi, reyndar svo vel að albúmið frá ferðinni er að detta í sundur, börnin okkar þreyttust aldrei á að fletta í gegnum það, núna eru myndirnar búnar að missa lit, en svona ferð gætum við ekki látið okkur dreyma um í dag.

Þegar kvótinn kom þá fengum við ekki eins mikið fyrir afurðina, við vorum eiginlega farin að borga með okkur. Maður þurfti að vera svo stór bóndi til þess að ráða við þannig búskap, við vorum litlir bændur sem þurftum alltaf að vinna annars staðar meðfram búskapnum og eftir tíu ár tókum við ákvörðun um að hætta, þetta var orðið of erfitt fjárhagslega og við vildum líka koma börnunum okkar til mennta. En það var gott að ala upp börn í Hjaltadal, og í Hjaltadal eignuðumst við fósturson okkar. Við eigum því tvo syni, fæddir sama ár og eru 42 ára í dag og eina stúlku sem er 41 árs. Þeim gengur öllum vel, vel menntuð og í ágætis störfum, voða duglegt fólk.

Fólk gefst upp á lífinu, þau sem stjórna landinu eru svo siðblind að þau sjá þetta ekki.

Við hjónin höfum alla tíð unnið verkamannavinnu og þegar við fluttum í bæinn þá réð ég mig fyrst á Mógilsá sem ráðskona, og síðan í umönnun á Grund þar sem ég hef verið síðustu 24 árin en hann fór á sendibíl áður en hann fór á sóparabíl hjá Hreinsitækni þar sem hann var í 20 ár.

Ég er í vaktavinnu og fæ 200 þúsund krónur fyrir mína vinnu, ég vinn aðra hvora helgi, og tvo daga í viku. Heilsa mín hefur verið léleg síðan ég fæddist, ég fékk heilahimnubólgu þegar ég var lítil, og afleiðingarnar af því er látlaus hausverkur, og svo kalla ég það köst þegar hann ágerist, en þetta gengur, þetta er allt í lagi, en ég þoli lítið áreiti, og hef ekki heilsu fyrir meira en 60 prósent vinnu.

Ég er ekki í slopp í vinnunni, bara í mínum eigin litríku fötum og heimilisfólkinu líður fyrir vikið meira eins og ég sé í heimsókn hjá þeim. Ég gef af mér í samskiptum við fólkið, gantast og grínast og fæ til baka gleði frá þeim. Ég er eins og vinkona þeirra í heimsókn og ég reyni alltaf að kveðja þegar ég fer heim eftir vinnu, og þá er ég stundum spurð: „hvenær kemur þú aftur í heimsókn?“ Þótt sumir viti alveg að ég sé að vinna hjá þeim og að ég komi alltaf aftur. Margt af fólkinu hefur stritað alla sína ævi, maður sér það bara á þeim, kvíðinn er svo mikill þegar barnabörnin og börnin eiga afmæli af því þau eiga ekkert afgangs til þess að færa fólkinu sínu, sama staða er hjá gamla fólkinu sem er heima hjá sér, það hefur ekki úr neinu að moða.

Maðurinn minn er 67 ára og hefur staðið í veikindum í heilt ár, hann þurfti að leggjast á spítala út af blæðingum í maga og gekkst undir uppskurð sem gekk ekki betur en svo að hann fékk kviðslit eftir aðgerðina, ofan á þetta er hann með ónýtt hné, bein í bein og var að koma úr aðgerð eftir tveggja ára bið. Hann er að jafna sig efir hnéaðgerðina, hann fór í hana 25. október en honum var hent út daginn eftir af því að A5 deildinni var lokað, allavega um helgar, vantar sjálfsagt fólk. Ég gat ekki tekið hann heim svona veikan þannig að honum var skotið inn á elliheimili, þar sem hann hefur verið síðan, en hann fékk tvær vikur þar inni til þess að jafna sig.

Þrátt fyrir að vera bæði mjög glaðlynd að upplagi fórum við langt niður á árinu, aðallega yfir því hvernig þessi kerfi hérna virka. Það er miklu meira en að segja það að lenda í veikindum. Hann veikist og þurfti að hætta að vinna en ekki af eigin ósk síðan kom endalaus bið eftir því fá einhverja meðferð. Hann var einn heima hérna í íbúðinni allan daginn og gat varla hreyft sig, og á endanum varð ég þunglynd líka eins og það kallast, svörin sem við fengum alltaf voru þau að þetta væri ekki akút aðgerð, hann yrði því að bíða. Ekki skánaði það að standa síðan frammi fyrir öllum kostnaðinum fyrir endalaus viðtöl við skurðlækna, magalækna, og alla aðra lækna, röntgenmyndatökur og ómskoðanir og síðan allan lyfjakostnaðinn.

Þegar hann varð 67 ára hrapaði hann í launum sem ekki varð til þess að bæta ástandið. Ég er 61 árs og hann varð 67 ára í október og við vorum farin að hlakka til elli áranna, smá hlé frá þessu streði, en þá kemur í ljós að upphæðin sem hann fær út er 261 þúsund krónur nákvæmlega. Ellilífeyrinn er 208 þúsund krónur og restin er lífeyrissparnaðurinn. Eftir alla þessa vinnu, alla okkar ævi fáum við ekki einu sinni óskertan lífeyri. Þegar ég borgaði í gær alla reikninga og þessu föstu útgjöld og spítalakostnaðinn, þá eigum við rétt um 200 þúsund og þá á ég eftir að borga hans föstu lyf, bensín og lifa út mánuðinn.

Við erum ekki til í þjóðfélaginu, við eigum bara að þegja, það eru skilaboðin, en við erum bara allt of mörg í þessari stöðu og getum ekki þagað lengur. Með þessi laun líður mann eins og það sé verið að refsa manni fyrir að vinna og hafa verið skattborgari alla tíð, refsa manni fyrir að eldast og veikjast. Við vorum millistéttarfólk en við erum það ekki lengur. Okkur er sagt að skammast okkar, og kennt um þensluna á meðan þau moka ofan í eigin vasa.

Heldur að það væri ekki betra ef fólk gæti séð sér farborða, þá væru örugglega færri öryrkjar, alkóhólistar og geðveilir. Fólk gefst upp á lífinu, þau sem stjórna landinu eru svo siðblind að þau sjá þetta ekki. Loforðin! Það er ekki hægt að ræða það, þau lofa að byggja brýr þótt engar árnar séu.

Hvað er eiginlega langt síðan að Katrín Jakobsdóttir sagði að það væri akút að ellilífeyrisþegar fengju lágmark 300 þúsund krónur, það eru að minnsta kosti þrjú ár síðan. Núna situr hún hinum megin við borðið og er orðin alveg eins og hinir. Frá örófi alda hefur þetta verið slæmt en aldrei eins og núna, maður gat þó lifað og gert eitthvað sem er ekki raunin í dag. Að skammast sín fyrir að tjá mig um bága stöðu mína get ég ekki lengur, ég þekki fullt af fólki sem nær ekki endum saman og er í sömu sporum og ég.“

Þórfríður Kristín Grímsdóttir starfar við umönnun aldraða og er félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: