„VIÐ DRUKKNUM Í PLASTI“
Þesssi barátta er talin vonlítil á meðan plastframleiðsla eykst stöðugt.
Árni Gunnarsson, fyrrum fréttamaður og alþingismaður, skrifar.
„VIÐ DRUKKNUM Í PLASTI“ heitir mynd, sem norska sjónvarpið sýndi í gærkvöld. Þar komu fram mörg dæmi þess hvernig hvalir flækjast í plastköðlum og veiðarfærum og hvernig þeir gleypa hverskonar plast, sem flýtur um í hafinu. Þá voru sýndar tilraunir fólks á Suðurhafseyjum að hreinsa strendur, þar sem liggur óhemja af plastflöskum, tunnum, pokum, netakúlum, plastumbúðum og netabútum. Fólkið gerir tilraunir til að hreinsa strendurnar, en árangurinn er óverulegur. Það kemur alltaf meira plast.
Þessi barátta er talin vonlítil á meðan plastframleiðsla eykst stöðugt. Þá var skoðað ástandið í N-Íshafinu, en þangað berst mikið magn af örplasti, en áður var talið, að þar væri hafið sæmilega hreint. Vísindamenn, sem þar voru, fundu örplast í fiski og jafnvel rostungum. Þeir töldu að örplast mætti finna í allri fæðukeðjunni.
Hér við land hefur fundist örplast í skelfiski og fiski. Eðlilega vaknar sú spurning hvaða áhrif örplast hefur á mannfólkið nú þegar það finnst í drykkjarvatni (ekki á Íslandi) fiski og jafnvel í loftinu.
Augljóslega verðum við að draga úr notkun á plasti, einkum einnota og vera á varðbergi gagnvart mengun af völdum hjólbarða og malbiks. Mér dettur alltaf í hug sá spádómur Biblíunnar um að mannkyn eigi eftir að drukkna í eigin skít.
Þessi mál eru komin á mjög alvarlegt stig og enginn veit hvaða áhrif örplast hefur á mannskepnuna. Þau áhrif geta varla verið heppileg.
Ég hvet Sjónvarpið og Stöð 2 að sýna fyrrnefnda mynd. Hún er áhrifamikil.