Við áttum bara að fara á hausinn
- segir aldrei hafi staðið til að leysa vanda fólksins.
„Eftir Hrunið var ég, eins og svo margir aðrir, fastur í einskonar limbói. Við héldum öll að eitthvað myndi gerast, að við værum í biðröð eftir einhverri lausn. En svo kom í ljós að það var engin lausn við endann, það stóð aldrei til að leysa neitt af okkar vanda. Við áttum bara að fara á hausinn,“ segir Haraldur Ingi Haraldsson, þegar hann horfir aftur til tímans eftir Hrun.
Manngerðar hamfarir
Haraldur Ingi og hans fjölskylda misstu íbúðina sína á nauðungaruppboð eftir Hrunið, eins og rúmlega níu þúsund aðrar fjölskyldur. Þetta voru gríðarlegar manngerðar hamfarir. Ætla má að um 25 þúsund manns hafi tilheyrt þessum fjölskyldum sem urðu undir Hruninu. Stundum er sagt að Íslendingar hafi verið heppnari en aðrar þjóðir í fjármálakreppunni 2008, þar sem stærsti hluti skulda bankana hafi fallið á erlend fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. En það á ekki við þær fjölskyldur sem misstu allt sitt í Hruninu. Fótunum var kippt undan þessu fólki og það varð sannarlega undir Hruninu.
Ég á ekkert og vil ekkert eignast
„Þetta var furðulegur tími,“ segir Haraldur. „Við vorum föst á stað þar sem ekkert gerðist og þar vonin kulnaði hægt og bítandi út. Þetta var mikið álag. Við hjónin skildum og líf mitt leystist upp, ég fór í áfengismeðferð og reyndi að byggja líf mitt upp á nýtt, tamdi mér minimalískan lífsstíl, endurbyggði mína tilvistarheimspeki, treysti samband mitt við börnin, lærði að hugleiða og reyndi að aðlaga mig að þessu limbói, þessu ástandi sem ég var fastur í. Ég á ekkert og vil ekkert eignast, vil ekki þurfa að treysta á neitt sem er jafn hverfult og íslenskt efnahagslíf.“
Þriðja íbúðin sem ég leigi
Haraldur Ingi býr í agnarsmárri íbúð við Ráðhústorgið á Akureyri, ódýrri íbúð með milljón dollara útsýni yfir torgið. „Þetta er þriðja íbúðin sem ég leigi eftir að ég missti húsið,“ segir Haraldur. „Hinar tvær íbúðirnar missti ég þegar eigendurnir vildu setja þær á airbnb þar sem er meiri tekjuvon. Það kostulega er að ég hef borgað nánast sömu upphæð í leigu allan tímann, en íbúðirnar hafa minnkað verulega, ég fór úr venjulegri íbúð í litla yfir í agnarsmáa. Ég borga 96 þúsund krónur á mánuði fyrir þessa íbúð, en hún er innan við 50 fermetra, svo fermetraverðið er æði hátt.“
Vinnur, borðar og sefur
Í þessari litlu íbúð vinnur Haraldur, borðar og sefur. Hann býr einn og hefur aðlagað íbúðina að sér. Þetta er of lítil íbúð til að rúma fleiri sálir. Þegar við ræddum við Harald urðum við smátt og smátt sammála honum. Íbúðin rúmar ekki fleiri skoðanir. „Kosturinn við þessa íbúð er að hún hentar illa fyrir airbnb,“ segir Haraldur. „Ég er því öruggari hér en ef íbúðin væri stærri og betur skipulögð.“
Enginn óhultur fyrir peningaöflunum
Haraldur segir að Hrunið hafi verið mikið áfall. Hann hafi ekki búist við að lenda í slíkri hringiðu, að hann og fjölskylda hans yrði dregin niður í svona svelg. „Ég menntaði mig til lágra launa og hef aldrei gert miklar kröfur,“ segir hann. „Ég trúði að ef ég gætti mín, keyrði ætíð um á ódýrum bíl, lifði spart og bærist ekki á; fengi ég að lifa mínu lágstemmda lífi í friði og koma börnunum mínum til manns. En Hrunið leiddi í ljós að það var ekki leyfilegt. Peningaöflin þurftu að rétta sig af og þá er enginn óhultur, þau þurftu að sækja fé til mín og annarra í minni stöðu til að rétta sig af. Í Hruninu kom í ljós að fólkið sem átti minnst og barst minnst á fékk yfir sig þyngstu höggin. Þetta er minn lærdómur af Hruninu. Það afhjúpaði hverjir hafa völdin í samfélaginu og að fólk eins og ég hefur engin völd.“
Efnaðir fengu meira
Íbúðirnar sem almenningur missti í Hruninu hafa flestar endað hjá stóru leigufélögunum eða hjá fjárfestum sem veðjuðu á að íbúðaverð hækkaði fljótt aftur. Fólk sem átti lítið, einkum barnafjölskyldur, ungt fólk og yngra miðaldra fólks, missti íbúðirnar frá sér á lágu verði til þeirra sem áttu mikið. Og þeir sem áttu mikið efnuðust enn meira þegar íbúðaverð tók að hækka. Fólkið sem missti húsnæðið sitt fór á leigumarkaðinn þar sem leigan hefur hækkað jafnt og þétt, langt umfram laun og verðlag. Fólkið sem missti húsnæði sitt borgar þeim sem keyptu það á lægsta verði sífellt hækkandi húsaleigu um hver mánaðarmót. Eignamissir um níu þúsund fjölskyldna eftir Hrun hefur þannig fært tugi milljarða króna, líklega vel á annað hundrað milljarða króna, frá þeim sem áttu lítið til þeirra sem áttu mikið og vilja sífellt eignast meira.
Ég er grár úlfur
Þessi valdamunur, munur á þeim sem eiga og þeim sem eiga ekki, er óvíða skýrari en á leigumarkaði. „Það ríkir örvænting á leigumarkaðnum,“ segir Haraldur. „Önnur dóttir mín var að gefast upp í vor og vildi reyna að smygla sér í gegnum greiðslumat, eins og fólk gerir, ljúga sig út af leigumarkaðnum. En ég gat talið hana ofan af því. Ég er grár úlfur, hef lært af erfiðri reynslu af verðtryggðum lánum til 40 ára, Íslandslánunum, að venjulegt fólk kemst ekki með slík lán á milli kreppa, það nær aldrei að eignast neitt. Það stendur ekki til. Kerfið er ekki sniðið að því. Kerfið er búið til svo venjulegt fólk borgi látlaust inn á lánin en eignist aldrei neitt. Næst þegar kapítalistarnir keyra okkur niður í kreppu verður það unga fólkið, barnafjölskyldurnar, venjulega heiðarlega fólkið, sem verður látið borga. Kapítalistarnir munu ekki skaðast neitt.“
Verðum að rísa upp
Haraldur segir að leigjendur verði að byggja upp öflug leigjendasamtök og berjast fyrir réttindum sínum. „Alls staðar í löndunum í kringum okkur hafa leigjendur meiri rétt,“ segir Haraldur. „Það er skömm hvernig stóru leigufélögin fá að koma fram við leigjendur. Stjórnvöld horfa á og gera ekki neitt. Við leigjendur verðum að rísa upp og neyða stjórnvöld til að færa okkur rétt og tæki til að verjast. Það mun enginn gera það fyrir okkur. Við verðum að sameinast og berjast.“