- Advertisement -

Við ættum að draga umræðuna að raunveruleikanum

„Ég held að við ættum að draga þessa umræðu niður í raunveruleikann og skoða Evrópu.“

„Þriðji orkupakkinn fjallar um meðferð þessarar vöru, fjallar um viðstöðulítil viðskipti með raforku milli landa. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að orkuþörf hefur aukist, menn eru að hneigjast til orkuskipta, til vistvænnar orku. Þá er um að gera að reyna að nýta sameiginlega möguleika Evrópuríkjanna til að ná þeim markmiðum,“ sagði Ari Trausti Guðmundsson í umræðu á Alþingi.

„Ástæðan fyrir þessum þriðja orkupakka er mjög ljós fyrir mér. En það sem orkupakkinn er ekki — hann snýst ekki um framleiðslumagn, þ.e. hversu mikil raforka er framleidd í tilteknu landi, eða framleiðslutækin. Hann snýst heldur ekki um flutningskerfin sjálf nema þau sem fyrir eru, þ.e. það er ekki innbyggt í þriðja orkupakkann að Evrópusambandið geti skipað mönnum í tilteknu ríki að bæta við flutningskerfið. Það gengur ekki þannig fyrir sig. Það gengur á markaðsforsendum. Þetta snýst í sjálfu sér um frjáls viðskipti og samninga. Og þessi frjálsu viðskipti og þessir samningar eru á forræði hvers ríkis. Það er engin stofnun ESB sem getur skikkað land til aukinnar orkuframleiðslu eða til að fjölga flutningslínum, ekki frekar en þegar kemur að öðrum auðlindum, t.d. málmum. Málmar eru vara. Og það er ekki svo að hægt sé að skikka eitthvert tiltekið ríki til að framleiða meira af málmum og selja það yfir landamærin til næsta ríkis sem hefur þörf fyrir það. Þetta er ekki þannig.“

Ari Trausti sagði einnig: „Ég spyr því ágæta andstæðinga þriðja orkupakkans hér á þingi: Hvar kemur það fram að einhver stofnun eða einhver lagagrein í Evrópulögum geti skikkað land til að auka orkuframleiðslu eða fjölga flutningslínum? Hvar í þriðja orkupakkanum t.d. er það? Ef þið skoðið Svíþjóð með sitt mikla umframorkumagn, af því að þeir eru jú með kjarnorku og vatnsafl o.fl., Kýpur, með sitt töluvert mikla vindafl, Danmörku með vindafl og Rúmeníu með sín 6.400 mW af vatnsafli — bendið mér á lönd sem Evrópusambandið hefur gengið að og skipað að byggja fleiri vindmyllur, fleiri vatnsorkuver, selja meiri orku inn á netið og leggja fleiri flutningslínur, eða nýjar flutningslínur. Ég bíð eftir þeim ábendingum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Við eigum vöru sem er eftirsótt, við skulum segja einhverjar ylræktarvörur. Skyldu svona kvaðir varða þær líka, af því það er frjálst flæði vara milli landa? Ég held að við ættum að draga þessa umræðu niður í raunveruleikann og skoða Evrópu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: