- Advertisement -

„Við ætlum að breyta þjóðfélaginu“

Ræða Sólveigar Önnu Jónsdóttur á Ingólfstorgi í dag, 1. maí.

Kæru félagar.

Við komum hér saman, við sem höfum byggt upp samfélagið okkar, við sem viðhöldum því alla daga ársins. Við komum saman til þess að sýna samstöðu, hvort með öðru og með okkur sjálfum og til þess að sýna þeim sem halda að þeir eigi samfélagið; valda og auðstéttinni sem heldur að hún sé skapari himins og jarðar, sem heldur að hún eigi allt þetta sem við höfum byggt – auðstétt sem heldur að hún megi fara með allt þetta eins og henni sýnist, auðstétt sem með græðgi sinni kemur í veg fyrir efnahagslegt réttlæti, samfélagslegt réttlæti; við komum saman til þess að sýna þeim sem henni tilheyra að við erum mörg. Að við erum sterk. Að samstaða er ekki bara í orði heldur líka á borði.

VIð rísum upp, við risum upp í vetur, við sögðum: Við erum hér og þið skuluð venjast því, við erum hér, við höfum alltaf verið hérna, nú er tími þess að við verðum öllum sýnileg runninn upp, sjáiði sýnilegu vinnu-hendurnar okkar og sjáiði hvað gerist þegar við stingum þeim í vasann, og þau brjáluðust, talsmenn óbreytts ástands, talsmenn algjörra yfirráða hinna ríku, andlýðræðislegasta fólk á Íslandi brjálaðist; 
glæpafólk, landráðamenn, hyski!; við vorum úthrópuð fyrir að dirfast að segja að fólkið sem býr um rúmin og fólkið sem keyrir strætó og rúturnar, vinnuaflið, væru alvöru manneskjur, lifandi manneskjur af holdi og blóði, með alvöru manneskjuréttindi, með rétt til að lifa frjáls, konurnar sem skúra voru ásakaðar um að vilja drepa Ísland; er ekki hægt að stoppa þessar klikkuðu þrjúhundruðþúsundkróna kellingar, þær hafa misst allt jarðsamband, græðgin í þeim mun drepa hagkerfið.

Forherðingin, firringin sem birtist okkur í vetur er vissulega ógeðsleg en við skulum samt fagna henni, þau sem hafa látið sem það væri náttúrulögmál að þau hafi endalaus völd til að ákveða lífsskilyrði okkar, afkomu, aðstæður voru opinberuð sem vanstilltir loddarar, og kerfið, arðránskerfið opinberaðist sem það sem það sannarlega er; kerfi tryllt óréttlætis sem fengið hefur að stigmagnast síðustu áratugi.

Við erum hér saman komin en sá tími er liðinn að við séum í baráttuhug aðeins einu sinni á ári. Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að bíða og biðja, sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að fara bónleið til að kreista út þúsundkalla frá auðstéttinni; við erum hér og þau skulu venjast því, við erum hér og við ætlum að krefjast og berjast alla daga ársins, við ætlum að berjast fyrir því að okkar hagsmunir ráði för, við höfum verið látin draga vagninn, okkur hefur verið kennt að vinna og okkur hefur verið kennt að bíða, okkur hefur verið kennt að sætta okkur við það sem okkur er rétt en sá tími er liðinn.
Við ætlum ekki lengur að fórna tíma okkar og lífi, okkur sjálfum fyrir þjóðfélag þar sem fámenn yfirstétt greiðir sjálfum sér milljarða í fjármagnstekjur á meðan að fjöldi fólks fær aldrei um frjálst höfuð strokið, þar sem börn auðmanna fjárfesta í lúxusíbúðum á meðan að börn þeirra sem búa við ofbeldi skortsins eru á hrakhólum. 
Við ætlum ekki lengur að fórna sjálfum okkur fyrir þjóðfélag sem byggir á óréttlæti og arðráni; nei, við ætlum að breyta þjóðfélaginu.

Velsæld okkar, raunveruleg velsæld samfélags þar sem þarfir fólks eru ávallt í fyrirrúmi byggir á jöfnuði, á efnahagslegu réttlæti. Jöfnuður býr til samfélag þar sem mannfólk hefur tíma og frelsi, raunverulegt frelsi, til að annast sjálft sig og börnin sín, frelsi til að njóta þeirrar einu tilveru sem okkur er úthlutuð, frelsi til að vaxa og dafna á eigin forsendum, frelsi undan kúgun vinnuþrælkunar, frelsi undan því skelfilega efnahagslega ofbeldi sem dæmir börn til að lifa við fátækt. 
Fyrir þessu ætlum við að berjast, sameinuð. Gegn arðráni og kúgun, fyrir frelsi og réttlæti. 
Takk fyrir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: