Heimildir herma að töluverðs leiða gæti í þingliði og grasrót VG vegna málsins.
Halda má að vandi Vinstri grænna sé ærinn. Nánast í hverjum einasta fréttatíma eru fréttir um ótækt ástand í heilbrigðismálum. Þar bera Vinstri græn höfuðábyrgð.
Þrátt fyrir að verkefnin séu mörg virðist sem Vg-liðar leggi sig fram um að auka á vanda sinn. Nú á að kyngja eigin stefnu hvað varðar vegatollana. En ekki nóg með það.
Í einhverju fári er Vg að stela versta glæpnum, taka á sig ábyrgð á eftirmálum Klaustursmálsins.
„Klaustursmálið virðist nú vera farið að þvælast töluvert fyrir stjórnarmeirihlutanum sem þarf á vinnufriði að halda. Heimildir herma að töluverðs leiða gæti í þingliði og grasrót VG vegna málsins og ekki síst vegna framgöngu karlmanna í þingliði flokksins, einkum þeirra Steingríms J. Sigfússonar þingforseta og Ara Trausta Guðmundssonar, sem studdi fyrrnefnda frávísun í umhverfis- og samgöngunefnd í gær,“ segir í ágætri fréttaskýringu Aðalheiðar Ámundadóttur í Fréttablaðinu í dag.
Ef fer sem horfir má ætla að stjórnarsamstarfið leiki Vinstri græn verulega illa. Þau hafa þurft að kyngja prinsippum og nú sækjast þau eftir að vera í miðpunkti eins versta máls sem pólitíkin hefur glímt við í langan tíma.