Allir þingmenn VG hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem þeir vilja efla brothættar byggðir og binda kvóta byggðarlögum. Vilj laga „þverbresti kvótakerfisins“.
„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og helstu hagsmunaaðila,“ segir í upphafi tillögunnar. Og að: „ Til grundvallar stefnumörkuninni fyrir minni sjávarbyggðir verði lögð verulega aukin byggðafesta veiðiheimilda og metið hversu miklum veiðiheimildum er nauðsynlegt að ráðstafa til þessa. Hliðsjón verði höfð af þeirri reynslu sem fengist hefur af ráðstöfun og notkun þeirra veiðiheimilda sem Byggðastofnun hefur haft til meðferðar.“
Í greinagerðinni segir meðal annars: „…úthlutun byggðakvóta er ráðstöfun sem gripið er til í viðlögum, þegar í óefni er komið með atvinnu og framfærslu fólks á tilteknum svæðum og nauðsynlegt þykir að afstýra vandræðum sem geta stafað af náttúrulegum orsökum, svo sem aflabresti, en einnig af mannavöldum eins og þeim þverbresti kvótakerfisins að unnt er að flytja aflaheimildir í einni svipan úr einum stað í annan án þess að minnsta tillit sé tekið til heimafólks sem missir viðurværi sitt eins og af völdum skyndilegra hamfara.“
Þingsályktunartillöguna má lesa hér.