- Advertisement -

VG styður spillinguna hjá Sjálfstæðisflokknum

Ég trúi því ekki að Vinstri græn haldi þetta í raun og veru.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Ef Vinstri grænir hefðu einhvern snefil af sjálfsvirðingu mundu þeir krefjast þess núna að Kristján Þór segði af sér sem sjávarútvegsráðherra. En flokkurinn, sem gefur sig út fyrir að vera flokkur jöfnuðar og réttlætis, ver af fullum þunga botnlausan þjófnað á auðlindum almennings. Ver þjófnaðinn og spillinguna svo fast að að flokkurinn sér ekki ástæðu til að Kristján Þór segi af sér, þó arðránið og spillingin tengist honum svo sterkum böndum að ekki er hægt að draga það í efa. Og það sem meira er þá samþykkir Vg að sjálfur Kristján Þór leiði spillingarrannsóknir sem nú á að setja af stað í kjölfar Samherjamálsins. Kristján Þór á sem sagt að rannsaka vin sinn og sjálfan sig. Katrín Jakobsdóttir talar meira að segja fyrir því og hefur sagt að hún vonist til að sátt náist um Kristján Þór.

Þingmenn Vinstri grænna hafa í hverju málinu á fætur öðru stutt spillinguna hjá Sjálfstæðisflokknum. Nægir að nefna Nei-ið við vantrauststillöguna á Sigríði Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra. Þar földu Vinstri grænir sig á bak við það, að ef þeir styddu vantrauststillöguna myndi ríkisstjórnin springa. Sama var upp á teningnum varðandi lækkun veiðigjaldanna. Og það þrátt fyrir að Katrín Jakobsdóttir og fleiri þingmenn Vg hefðu áður (áður en ríkisstjórnin var mynduð) haft hátt í þinginu um hversu veiðigjöldin væru lág og ósanngjörn.

Vinstri grænir eru tilbúnir til að kasta öllum prinsippum sínum.

En skoðum þessa röksemd um að ef flokkurinn hefði ekki brugðist við málunum á þennan hátt þá myndi stjórnin springa. Þetta eru arfavitlaus rök. Ég trúi því ekki að Vg haldi þetta í raun og veru. Og afhverju eru þetta arfavitlaus rök? Jú vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn myndi aldrei ótilneyddur fórna ríkisstjórninni. Fórna því að hafa tögl og hagldir í fjármálaráðuneytinu, sjávarútvegsráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Meðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þessi ráðuneyti þá hafa auðmenn á Íslandi, kvótakóngar og fjársterkir aðilar í atvinnulífinu gullin tækifæri til að halda áfram að styrkja sína stöðu og mala gull á kostnað almennings. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki fórna núverandi ríkisstjórnarsamstarfi bara til að halda Kristjáni Þór í embætti. Kvótakóngarnir yrði að kyngja því en fá bara annan í staðinn sem er þeim þóknanlegur. Nóg er af þeim í Sjálfstæðisflokknum. Ef ekki í þingflokknum þá bara utan hans, svipað því sem Vg gerði varðandi umhverfisráðuneytið.

Nei, þessi rök Vg halda ekki vatni. Vinstri grænir eru tilbúnir til að kasta öllum prinsippum sínum, stefnumálum og sjálfsvirðingunni til að að fá að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Svo lafir Framsóknarflokkurinn þarna með svo stjórnin hafi meirihluta. Og svo er það óskastaða Sjálfstæðismanna að hafa Katrínu Jakobsdóttur sem málsvara og stuðpúða fyrir arðránið, sukkið og spillinguna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: