Fréttir

Vg: Óheiðarlegt og ólýðræðisleg

By Miðjan

April 29, 2021

Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag, kemur inn á mögnuð viðbrögð Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem nú missir þingsæti sitt. Kolbrún skrifar:

„Prófkjör geta verið undarleg, en það eiga stjórnmálamenn líka að vita. Furðulegt er þegar þeir stíga fram, mjög pirraðir, þegar þeir náðu ekki þeim árangri sem þeir ætluðu sér. Dæmi um þetta er Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem tapaði nýlega oddvitasæti sínu í Norðvesturkjördæmi fyrir Bjarna Jónssyni, sveitarstjórnarfulltrúa í Skagafirði. Hún sagði leikreglurnar sem viðhafðar hefðu verið í prófkjörinu hvorki heiðarlegar né lýðræðislegar.

Lilja Rafney vildi umfram allt halda þingsæti sínu en Bjarna langaði líka mikið á þing. Lilja Rafney segir að í aðdraganda prófkjörsins hafi um 500 manns bæst í flokkinn. Hún telur þessa viðbót ekki hafa unnið með sér. Bjarni er svo lánsamur maður að 500 manns virðast hafa lagt á sig það erfiði að ganga í Vinstri græna til að styðja hann. Mögulega hafa það verið þung spor fyrir einhverja í þessum fjölmenna hópi að ganga í flokkinn, en hvað gerir maður ekki fyrir manneskju sem maður hefur trú á?“