Þeir hafa bent hvernig flokkarnir hafa fjarlægst uppruna sinn.
Eftir að hafa lesið nýja grein á styrmir.is er upplagt að endurbirta þessi skrif.
Styrmir Gunnarsson skrifar um stjórnmálaflokkana í grein sinni í Morgunblaði dagsins. Hann segir meðal annars:
„Í ljós hefur komið að fyrrum flokkar jafnaðarmanna og sósíalista, sem áður byggðu fyrst og fremst á fylgi félagsmanna verkalýðsfélaganna, hafa misst tengsl við þá kjósendahópa og afleiðingin er sú að þeir eru ófærir um að endurspegla viðhorf, skoðanir og tilfinningar þeirra kjósendahópa.“
Hvað hefur breyst? Miðjan hefur áður fjallað um þetta sama mál, eða svipað. Þá hafði Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, verið í viðtali við, Jón Orm Halldórsson, í þættinum Samtal á rás 1. Þar sagði Eiríkur, um þetta sama mál að í forystu fyrir þessa flokka, þegar líða tók á tuttugustu öldina, hafi komið allt annarskonar fólk. Langskólagengnir menntamenn, fólk sem hefur áhuga á fleiru heldur en stéttabaráttunni, launabaráttunni, lífskjarabaráttunni. Það fólk er með áhuga á umhverfisvernd, jafnréttismálum, lýðræðisumbótum og svo framvegis.
Styrmir skrifar í grein dagsins: „Hinir hefðbundnu flokkar og að sumu leyti arftakar þeirra (Samfylking og VG) ættu að hugleiða, hvort leiðin út úr þeirri sjálfheldu, sem flokkarnir eru óneitanlega í, geti ekki verið sú lýðræðislega leið að efna til opinna umræðna í þeim öllum og sjá til hvers slíkar umræður leiða. Fullyrða má að almennir flokksmenn í þessum flokkum vilja slíkar umræður, þótt þeir fari sér hægt við slíka kröfugerð vegna kurteisi og tillitssemi við forystumenn sem standa í ströngu.“
Eiríkur sagði að auðvitað teljist það fólk til verkalýðs, fólk sem lifir af launum sínum. „Fólk sem er tveimur launatékkum frá fjárhagsvandræðum. Sósídemókratískuflokkarnir gleyma þessu.“
Styrmir skrifar: „Það er líka umhugsunarefni fyrir þessa lýðræðissinnuðu flokka, hvort lýðræðislegri vinnubrögð innan þeirra mundu kannski koma að gagni.“
Og að lokum þessi setning frá Styrmi: Um þennan veruleika er ekki rætt, hvorki „hjá Samfylkingu né Vinstri grænum.“