- Advertisement -

Vg og Framsókn á flótta frá sjálfum sér

„Á síðasta kjörtímabili þegar nefnd Þorgerðar Katrínar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni starfaði, lögðu bæði fulltrúar Framsóknar og VG í nefndinni áherslu á að um tímabundin afnot væri að ræða. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var sá eini sem ekki tók af skarið með það.“

Þannig skrifar Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

„Með þessu veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ljóst að bæði VG og Framsókn eru að harðahlaupum frá fyrri kröfu um að sjávarauðlindin eigi að vera þjóðareign.“

Hanna Katrín skrifar áfram: „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, vill að auðlindagjaldið verði nýtt á þeim stöðum þar sem það verður til. „Ég hefði viljað sjá að gjaldið færi í uppbyggingu innviða þaðan sem gjaldið kemur, að mestu á landsbyggðinni, en það fylgir ekki. Í grunninn eru þetta æfingar sjávarútvegsráðherra að nýjum tekjuskatti þar sem menn geta dregið frá ýmsar fjárfestingar. Það er ekki sá þjóðarhlutur sem ég hefði viljað sjá,“ segir Þorgerður. „Það sem undrar mig er að VG haldi í þennan leiðangur og kokgleypi þessar breytingar sem eru fyrst og fremst í þágu sérhagsmuna. Af hálfu hinna stjórnarflokkanna er þetta frekar fyrirsjáanlegt.““

„Í grunninn eru þetta æfingar sjávarútvegsráðherra að nýjum tekjuskatti þar sem menn geta dregið frá ýmsar fjárfestingar. Það er ekki sá þjóðarhlutur sem ég hefði viljað sjá.“

Hanna Katrín segir ljóst að stjórnarflokkarnir þrír sameinist nú um að hafna þeirri grundvallarkröfu að sjávarauðlindin sé þjóðareign. „Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað sérstaklega í skýrslu svokallaðrar auðlindanefndar sem starfaði um aldamótin. Í setningunni sem vitnað er til úr skýrslu auðlindanefndar er lögð áhersla á bein tengsl milli varanleika heimilda og gjaldtöku. Þetta er grundvallaratriði! Í þessu veiðigjaldafrumvarpi er sem sagt vísað í þessa setningu en engu að síður gerir frumvarpið ráð fyrir að veiðigjaldið verði eftir sem áður endurgjald fyrir ótímabundin afnot! Þetta er veigamesta atriðið þegar kemur að því að meta hvort um er að ræða þjóðareign eða einkaeign útgerðarinnar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: