„Tíminn hefur hins vegar oftar en ekki leitt í ljós að sjónarmið okkar voru fullgild og aðrir gert skoðanir okkar að sínum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, í Moggaviðtalinu ágæta, þegar hún er spurð:
„Samt er það nú svo að flokknum hefur gengið mjög upp og ofan í skoðanakönnunum að undanförnu. Sögulega hafa Vinstri græn oft farið á flug en einatt þurft að þola mun lakari kosningu. Er það þér ekki áhyggjuefni?“
Katrín svaraði: „Auðvitað er gaman að fá byr í seglin í skoðanakönnunum, en við höfum aldrei verið flokkur sem hagar seglum eftir þeim vindum. Við höfum alltaf staðið á sannfæringu okkar og verið óhrædd að kannast við hana. Jafnvel þótt það hafi stundum verið óvinsælar skoðanir þá stundina. Hver man ekki eftir deilunni um Kárahnjúka? Tíminn hefur hins vegar oftar en ekki leitt í ljós að sjónarmið okkar voru fullgild og aðrir gert skoðanir okkar að sínum.
En við erum líka óhrædd við að horfast í augu við raunveruleikann og gera það sem þarf að gera, jafnvel þótt það sé ekki alltaf til vinsælda fallið. Heldurðu t.d. að mér hafi þótt gaman að verða menntamálaráðherra á sínum tíma og þurfa að standa í mesta niðurskurði í sögu ráðuneytisins?“
Nei, það var kannski ekki skemmtilegt. Ekki frekar en svo margt annað sem flest okkar þurfa að gera á lífsleiðinni. Óþarfi að vorkenna Katrínu mikið. Mogginn spyr:
„Nei, en það getur ekki heldur verið gaman fyrir þig að sjá hvernig Samfylkingin skýst upp í könnunum í hvert sinn sem þið farið niður? Sérstaklega þegar haft er í huga að mestöll gagnrýni úr þeirri átt beinist að ykkur, svona nánast eins og Samfylkingin sé að sækja að ykkur frá vinstri.“
Ha, er Samfylkingin að sækja að frá vinstri? Í faðmlögum með Viðreisn, sem er hægra megin við Sjálfstæðisflokk. Jæja, en Katrín svarar:
„Ég held það þjóni takmörkuðum tilgangi að velta slíkum fylgishreyfingum sem ganga upp og niður til skiptis mikið fyrir sér, hvað þá að setja þær í samhengi við pólitísk dægurmál. Báðir þessir flokkar eru til vinstri og á ekki að koma neinum á óvart þótt fylgi færist á milli þeirra.
Það er hins vegar auðvitað þannig að við sem vinstriflokkur höfum á stefnu okkar að breyta ríkjandi ástandi og þess vegna er það kannski svolítið ríkt í okkur að vera tilbúin til andófs því sem okkur finnst miður fara, sérstaklega auðvitað í stjórnarandstöðu. Í ríkisstjórn höfum við raunveruleg áhrif til þess að breyta hlutunum með virkum hætti, en erum okkur auðvitað meðvituð um að valdinu eru takmörk sett og að við verðum að fara fram af ábyrgð. Stjórnarandstaðan er laus við þær takmarkanir.“
Þá látum við þessum kafla viðtalsins lokið.