„Þessi ályktun er umhugsunarefni fyrir forsætisráðherra, formann Vinstri grænna. Vissulega hefur vakið athygli um hríð að tengsl flokksins við launþegahreyfinguna minnki hratt og hann halli sér í auknum mæli að velmegandi hópi háskólafólks og sérfræðinga sem njóti launa og öryggis fyrir að erinda fyrir hið opinbera.“
Það er Davíð Oddsson sem baunar á Vinstri græn í leiðara dagsins. Tilefnið er þriðji orkupakkinn. Davíð styður sig við umsögn ASÍ um orkupakkann. ASÍ er sama sinnis og Davíð, eru á móti.
„Það mun ekki bæta traust og vaxtarmöguleika VG verði sú tilfinning ríkjandi að flokksforystan geri lítið með sjónarmið úr öðrum áttum,“ skrifar ritstjórinn í Hádegismóum.
„Það er ekki aðeins eftirtektarvert heldur himinhrópandi að þeir sem ætla sér nú að fara gegn sívaxandi andúð almennings á þessu máli færa ekkert fram sem mælir með slíkri framgöngu. Öll rök þeirra, svo fátækleg sem þau eru, snúast um að þær hættur sem almenningur telji stafa af málinu og blasa reyndar við, séu ekki jafn alvarlegar og fólkinu finnst. Því valdi „fyrirvararnir“. Fyrirvararnir? Hvaða fyrirvarar? Jú þá er vísað í minnisblað um viðhorf sem sendinefnd undir forystu íslenska utanríkisráðherrans hafi fengið að viðra við einn af kommissörum ESB og afhenda á fundi með honum, þar sem sá viðurkenni að hafa verið viðstaddur.“
Forysta Sjálfstæðisflokksins fær frið þennan daginn.