- Advertisement -

Vextir þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs

…þetta sér­ís­lenska há­vaxtaum­hverfi gleyp­ir fjár­muni…

„Rík­is­stjórn VG, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar hef­ur mistek­ist að tak­ast á við eina stærstu áskor­un­ina sem hún stend­ur frammi fyr­ir. Vaxta­kostnaður rík­is­sjóðs hef­ur auk­ist hratt á síðustu árum, vegna halla­rekst­urs og skulda­söfn­un­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar, og við erum minnt á veru­leik­ann sem fylg­ir há­vaxtaum­hverf­inu á Íslandi. Minnt á þann blá­kalda veru­leika að þetta sér­ís­lenska há­vaxtaum­hverfi gleyp­ir fjár­muni sem við hljót­um öll að vera sam­mála um að væri bet­ur fyr­ir komið ann­ars staðar,“ segir í grein sem Hanna Katrín Friðriksson Viðreisn skrifar í Moggann.

„Þrátt fyr­ir mik­inn hag­vöxt hér á landi er hlut­fall vaxta­gjalda af vergri lands­fram­leiðslu um­tals­vert hærra hér en í ná­granna­ríkj­un­um. Vaxta­gjöld­in eru þannig fimm til sex sinn­um hærri en á hinum Norður­lönd­un­um. Og sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu eru vaxta­gjöld okk­ar líka hærri en vaxta­gjöld landa sem eru tölu­vert skuld­sett­ari en Ísland. Íslensku vaxta­gjöld­in eru meira að segja hærri en hjá þjóðum sem skulda tvö­falt meira en Ísland. Þessa þungu staðreynd mega þau sér­stak­lega hafa í huga, sem vilja auka enn frek­ar á skuld­setn­ingu ís­lenska rík­is­ins af því að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs þoli það. Það sem við þolum ekki er langvar­andi ástand þar sem vaxta­gjöld eru þriðji stærsti út­gjaldaliður rík­is­sjóðs, eins og nú er.

Á síðustu 4-5 árum hafa vaxta­gjöld rík­is­sjóðs auk­ist um u.þ.b. 40-50 millj­arða króna. Á næsta ári er gert ráð fyr­ir að vaxta­gjöld­in verði 95 millj­arðar króna. Ef við setj­um þessa 95 millj­arða í sam­hengi við aðra út­gjalda­flokka þá er þetta litlu minna en allt fram­halds­skóla- og há­skóla­stigið fær í fjár­lög­um næsta árs og meira en fram­lög til sam­göngu­mála og heilsu­gæslu til sam­ans. Það þarf ekki sér­stak­lega virkt ímynd­un­ar­afl til að sjá hvað það skipt­ir miklu máli að lækka þessa upp­hæð veru­lega. Hvað væri ekki hægt að gera fyr­ir þá fjár­muni? Heil­brigðis­kerfið okk­ar myndi alla vega ekki hafna inn­spýt­ing­unni.

Fjár­hæðin gæti tryggt…

Lang­tíma­vext­ir á evru­svæðinu eru um helm­ing­ur af lang­tíma­vöxt­um hér á landi. Ef gjald­miðill­inn okk­ar byði upp á sam­bæri­lega vexti myndi það spara okk­ur sömu fjár­hæð og nem­ur aukn­ingu vaxta­gjald­anna síðustu 5 ár, eða um 40-50 millj­arða. Sú fjár­hæð sam­svar­ar til dæm­is fram­lög­um okk­ar til Sjúkra­trygg­inga Íslands á næsta ári. Fjár­hæðin gæti tryggt samn­inga við sjálf­stætt starf­andi sál­fræðinga og lækna og áfram mætti telja.

Ef vaxta­gjöld rík­is­sjóðs væru ekki þriðji stærsti út­gjaldaliður rík­is­sjóðs eins og í dag vær­um við í mun betri fær­um til að tryggja sjálf­bæra vel­ferð sam­hliða ábyrgri efna­hags­stjórn í stað þess að þetta sér­ís­lenska há­vaxtaum­hverfi gleyp­ir fjár­muni og senda kom­andi kyn­slóðum reikn­ing­inn.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: