- Advertisement -

VERÖLD SEM VAR – Þröstur Ólafsson: Horfinn heimur – minningaglefsur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Í samanburði má nefna, að fjarlægðin til meginlands Evrópu er liðlega 2000 km. Af þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar hefur aðeins lítill hluti orðið landbúnaðinum að gagni. Restin flokkast undir landspjöll.

Þessi bók leynir á sér – það er ekki allt sem sýnist. Þetta er alls ekki ævisaga í hefðbundnum stíl. Nær lagi væri að kalla þetta aldarfarslýsingu – eða jafnvel sögu ráðandi hugmynda – á öld öfganna.

Á 20stu öldinni – okkar stríðshrjáðu öld

Höfundurinn sýnir okkur á vegferð sinni inn í heim hugmyndanna, sem takast á um völdin til að móta mannlegt samfélag. Það kostar stríð. Það kostar milljónir mannslífa. Það vekur vonir um betri  heim, og það veldur nístandi vonbrigðum, þegar allt fer á annan veg en draumurinn (hugsjónin) gaf fyrirheit um. Svo ráfa niðurbrotnir menn um í rústunum (Þýskaland og Austur Evrópa eftir seinna stríð).  Allt fer aftur á byrjunarreit. Getum við lært eitthvað af þessu? Ef ekki – erum við þá dæmd til að endurtaka mistökin?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þröstur er með þingeyska heimanfylgju í föðurætt úr fjörðum norður en vestfirskan „djöfulsskap“ af Ströndum  í móðurætt.   Hinn norðlenski menntaskóli kom honum til manns  – bjó hann undir það sem koma skyldi og fórst það vel úr hendi.  En þýskukennslan var einum of góð. Það átti eftir að ráða miklu um framhaldið.

HÚSAVÍK – BERLÍN

Berlín varð heimaborg  Þrastar á sjöunda áratugnum. Stríðshrjáð og hersetin af sigurvegurum stríðsins. Þar mættust Austur og Vestur. Þar var vígvöllur hugmynda  Kalda stríðsins. Þjóðverjar höfðu fengið sinn skammt af „bölvun þjóðernishyggjunnar“– og meira en það. Vígvöllur kalda stríðsins, sagði ég. Lýðræði gegn alræði. Einstaklingsfrelsi gegn ríkisforsjá. Málfrelsi gegn skoðanakúgun.  Réttarríki gegn ráðstjórn. Frjálsir fjölmiðlar gegn heilavþætti.. Allt svart eða hvítt og   grátt fyrir járnum. Þarna lá „þýsk-evrópsk siðmenning… afvelta á skurðarborði millistríðsáranna. Þetta snerist um það , hvaða pólitíska og menningarlega vegakort ætti að nota inn í framtíðina“ (bls.60).

Þresti dvaldist nokkuð í Vestur-Berlín, á vegamótum ólíkra menningarheima. Hann lærði ekki bara  þýska hagfræði, þar sem arfleifð Bismarcks  um skyldu ríkisvaldsins til að stýra og hafa  taumhald á markaðsöflunum, er stórt;  hann sökkti sér ofan í þýska menningu – sögu, tónlist og bókmenntir – sem  þrátt fyrir töframátt sinn megnaði ekki að koma vitinu fyrir þýsku þjóðina í stríðsbrjálæði Hitlers.

STÚDENTABYLTINGIN

Þarna eru margir þræðir listilega fléttaðir saman: Hin þingeyska heimanfylgja (frá Benedikt á Auðnum til Helga Hálfdanarsonar og Shakespeare-þýðinga hans –  sem Þröstur gaf seinna út hjá M og m)  til ofgnóttar þýskrar menningar frá liðinni tíð.  Þarna átti Þröstur eftir að upplifa, að „lífið er félagsskapur“, eins og Guðmundur Páll, hinn þekkti náttúruunnandi og yngri bróðir Þrastar, komst gjarnan að orði.  Upp úr úr þessari gerjun spruttu hinar „róttæku“ námsmannarhreyfingar, kenndar við Rudi Dudske og Cohn Bendit, sem steyptu af stóli sjálfum De Gaulle,  og settu óttahroll að ráðandi öflum víða í álfunni. Þetta var 68- kynslóðin, sem þóttist ætla að breyta heiminum. Örum hagvexti fylgdi gegndarlaus neysluhyggja. Má ekki þar greina upphafið að loftslagsvá samtímans, ógninni við lífríkið? Ójöfnuður óbeislaðs kapitalisma er hér meginsök:  10% hinna ríkustu valda meira en helmingi umhverfisvánnar.

Hún virðist kunna betur við sig í  „druslugöngum“ en í kröfugöngum 1. maí (sjá bls. 166).

Þegar á reyndi varð allavega minna úr því en til stóð að breyta heiminum. Þannig breytist það sem vel átti að virka í andstæðu sína. Hin róttæka kynslóð  breytti þó alla vega fatasmekknum  – sumir hættu að ganga með bindi! Það þótti bera vott um róttækni. – Minnir þetta ekki svolítið á ungu kynslóðina í dag?  Hún virðist kunna betur við sig í  „druslugöngum“ en í kröfugöngum 1. maí (sjá bls. 166).

VEISLAN Í FARANGRINUM

Heim kominn átti Þröstur eftir að láta að sér kveða á mörgum sviðum, svo að eftir var tekið. Þar fléttuðust saman ólíkir þræðir: hin þingeyska samvinnuhugsjón og hin þýskættaða ástríða fyrir menntun og menningu. Og þýska hagfræðin, með aga og ordnung, til að borga fyrir allt saman. Hann hafði, ásamt öðrum, frumkvæði að stofnun SINE ( sambandi íslenskra námsmanna erlendis) og samdi við Gylfa Þ. Gíslason, menntamálaráðherra, um nýjan lánasjóð íslenskra námsmann erlendis (LÍN) sem náði til allra námsmanna. Og hann gekk sínar Keflavíkurgöngur (gegn her í landi), þótt þýska efahyggjan (gagnrýnin hugsun)  rækist æ oftar á viðtekin sannindi –  íslensk. Hvernig gætu sovétsinnaðir sossar borið uppi íslenska þjóðernishyggju?

Hann gekk til liðs við Magnús Kjartansson, þá iðnaðarráðaherra (1971-74). Magnús hélt áfram stefnu forvera sinna um að semja við fjölþjóðlega auðhringa um málmbræðslur, knúnar hreinni og endurnýjanlegri orku, en vildi að íslendingar ættu þar meirihluta. Þröstur segir að sem betur fer gekk það ekki eftir og styður þá skoðun sína veigamiklum rökum. Það kom hins vegar í hlut Þrastar að aðlaga íslensk iðnfyrirtæki að breyttum veruleika við inngöngu Íslands í EFTA. Þar með var tollvernd úr sögunni (að loknum aðlögunartíma) og samkeppni innleidd.

Viðskilnaður Þrastar við Alþýðubandalagið fær síðan sérstakan kafla undir heitinu „Ófræging og bakmæli.

 Seinna reyndi Þröstur að bjarga því sem bjargað varð í „ráðalausri ríkisstjórn“ Gunnars Thoroddsen (sjá bls. 244).  Í verðtryggðu verðbólgufári ákvað sú lánlausa ríkisstjórn að greiða launauppbót til láglaunafólks  „sem stjórnlaus verðbólga hafði leikið grátt“. Þeir í fjármálaráðuneytinu höfðu ekkert annað en skattskrána til að finna þá tekjulægstu í landinu. Láglaunabætur voru sendar út um allt land samkvæmt skattskránni. Í ljós kom, „að láglaunabæturnar féllu ekki hvað síst í skaut helstu útgerðarmönnum plássanna úti á landi…“.

Síðan segir: „ Opinberar skattskrár voru greinilega ekki traustar heimildir um raunverulega lífsafkomu landsmanna.“  Þær voru hins vegar haldgóðar heimildir um víðtæka skattundankomu hinna efnameiri. „Höfðum við af þessari velmeintu viðleitni til tekjujöfnunar lítinn frama“ – segir Þröstur.

Viðskilnaður Þrastar við Alþýðubandalagið fær síðan sérstakan kafla undir heitinu „Ófræging og bakmæli“, (sjá bls. 234 – 238). Það segir meira en mörg orð um andlega ástandið í þeim flokki!

LÍFSKJARASAMNINGAR

Ekki verður skilist  við afskipti  Þrastar  af hagstjórn lýðveldisins án þess að geta um frumkvæði hans að svokölluðum „lífskjarasamningum“ á vinnumarkaði 1984-86 í samstarfi við Guðmund jaka (sjá bls. 257-270). Um þá segir í BA-ritgerð Árna H. Kristjánssonar: „Þjóðarsáttin 1990 – Forsagan og goðsögnin“: „Kjarasamningarnir 1984 og 1986 voru metnaðarfullar tilraunir, sem menn drógu lærdóm af. Þessi reynsla var síðan nýtt við gerð þjóðarsáttarinnar 1990, þar sem korpóratískar hugmyndir Þrastar Ólafssonar voru efniviðurinn, en grunnurinn voru hin nauðsynlegu efnahagslegu skilyrði, sem ríkisstjórnin hafði skapað“ (sjá bls.264).

Hér ræðir um vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91), sem loksins kom verðbólgunni niður í einstafstölu. Þá var Þröstur orðinn aðstoðarmaður minn í utanríkisráðuneytinu.

Þröstur færir rök fyrir því að hvort tveggja, lífskjarasamningar og aflamarkskerfi við fiskveiðistjórnun (sjá bls. 271-79), sem hann vann að ásamt öðrum í svokallaðri „tvíhöfðanefnd“  hafi verið hugsað til að renna stoðum undir stöðugleika sem svo sárlega hefur skort í íslensku efnahagslífi. Hann segir: „Það sem á vantaði á þeim tíma, var skilyrðislaust ákvæði um greiðsluskyldu fyrir nýtingaréttinn. Sú vanræksla átti eftir að koma þjóðinni í koll síðar“ (bls 276).

Þröstur rifjar upp eftirminnilegan fund okkar og Styrmis Gunnarssonar um þetta mál, þar sem Styrmir hélt því fram „að sá mikli auður sem þá þegar var farinn að safnast á hendur fárra útgerðarmanna hefði verið það fjármagn sem gerði útrásina mögulega. Á þessu bærum við ábyrgð.“ Síðan segir: „Þessu andmæltum við og sögðum þessa auðsöfnun vera afleiðingu þess að Flokkurinn hans héldi hlífiskildi yfir útgerðinni og afhenti henni verðmætustu auðlind þjóðarinnar á silfurfati til einkanýtingar án endurgjalds.“ (Sjá bls. 278)

Þetta deilumál er enn óútkljáð.

MENNINGIN

Í bókinni er að finna fróðlega kafla um sitt hvað, sem gerðist á bak við tjöldin á menningarsviðinu á árunum fyrir og eftir Hrun. Þar segir m.a. frá leiðangri, sem gerður var út til að forða Máli og menningu frá gjaldþroti, hvernig staðið var að uppbyggingu Minjaverndar, hvernig framtíð Sinfóníuhljómsveitarinnar var tryggð, sem og fjármögnun Hörpu tónlistarhúss o.fl.

…um spillinguna, sem náð hefur að skjóta rótum í fjármálalífinu og stjórnsýslunni, sem leiddi til Hrunsins 2008.

Seinustu kaflar bókarinnar fjalla m.a. um, hvernig EES-samningurinn breytti íslensku þjóðfélagi í grundvallaratriðum; um stöðu íslensku þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu  í gerbreytttum heimi að loknu Kalda stríðinu; um spillinguna, sem náð hefur að skjóta rótum í fjármálalífinu og stjórnsýslunni, sem leiddi til Hrunsins 2008. Í athyglisverðum kafla, sem nefnist „Heimur á hverfanda hveli“ (bls.332 – 38) er átakasviði heimsmálanna í fyrirsjáanlegri framtíð lýst sem svo: „…ófrjálslyndi gegn frjálslyndi, einræði gegn lýðræði, frjálsir eða þaggaðir fjölmiðlar, hnattræn eða þjóðleg hagsvæði, óháðir eða stýrðir dómstólar, réttindi eða réttleysi minnihlutahópa –  og það sem þessu er nátengt: Stríð eða friður“.

Í athyglisverðum kafla, sem nefnist „Framfarahugsjón verður hamfaravaldur“, segir Þröstur dæmisögu af því, hvernig hugsjónir um bættan heim snúast iðulega upp í andhverfu sína. Sú var tíð, að framræsla votlendis var boðuð sem hugsjón um að græða landið og auka landnytjar. „Grafnir höfðu verið  um 34.000 kílómetrar af skurðum“ (bls. 365). Í samanburði má nefna, að fjarlægðin til meginlands Evrópu er liðlega 2000 km. Af þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar hefur aðeins lítill hluti orðið landbúnaðinum að gagni. Restin flokkast undir landspjöll.

Síðan segir: „Það er svo margt ,sem unnið er í góðri trú, en snýst upp í andstæðu sína, þegar heildarmyndin birtist að lokum“ (bls. 365). Dæmin eru mýmörg: Framtíðarríki verkalýðsins, sem átti að afnema arðrán manns á manni,  snerist upp í andhverfu sína;  nýfrjálshyggjan sem boðar hömlulausa einstaklingshyggju,  snýst upp í auðræði hinna fáu og afmyndun lýðræðis; feminismi, sem er í eðli sínu mannréttindahreyfing til að uppræta kúgun karla á konum, snýst upp í afmyndun réttarríkisins með kröfu um sniðgöngu dómstóla. Kanntu fleiri dæmi?

ÓLEYST VANDAMÁL

Dómur höfundar um  hinn horfna heim 20. aldarinnar er blendinn.Gefum höfundinum orðið:

„Seinni helmingur hennar skilaði heimsbyggðinni þó mesta góðæri, sem komið hefur sennilega frá upphafi. Í þessum mikla alheims hagvexti er einnig að finna orsakir ógnarinnar miklu – loftslagsvána. Sennilega mun sú vá verða varanlegri og skilja eftir sig dýpri svöðusár en ánægjan, sem skammvinn gleði – og velmegunarár gerðu.“

Þetta var vond öld, því hún skilur eftir sig svo mörg óleyst stórmál, sem seinni kynslóðir þurfa að leysa. Hér á landi voru þrjú stórmál skilin eftir frá liðinni öld, sem aðeins við ein getum leyst:      Í fyrsta lagi er það auðlindastjórnun og afgjald fyrir afnot af þjóðareign. Það á bæði við um nýtingu hafsins, fiskimiða, landgrunns, lofts, sem og nýtingu fallvatna og jarðhita.

Annað málið er innganga í Evrópusambandið. Um það segir m.s.: Kjaramál láglaunafólks verða trauðla leyst án nýs gjaldmiðils og breyttra leikreglna í landbúnaði. Upptaka evru í kjölfar inngöngu í ESB yrði umbylting til heilbrigðari stjórnarhátta, sanngjarnara og jafnara samfélags.“

Þriðja málið sem bíður á „færibandi sögunnar er ný stjórnarskrá og alveg sérstaklega jöfnun atkvæða. Þar með myndi skertur kosningaréttur þeirra, sem búa í þéttbýlinu við Faxaflóa verða leystur, en hann er helsta hindrun þess, að málefnum landsins verði skipað í sátt við meirihluta íbúanna, en sanngjarnt meirihlutavald og málamiðlun er kjarni lýðræðisins“. (bls. 380-81).

Niðurstaðan er: Bókin er djúphugul greining á aldarfari og framtíðarhorfum.

Jón Baldvin Hannibalsson


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: