- Advertisement -

Verktakar eru að stela borginni

- mikil vonbrigði eru með leyfi fyrir gististað við Barónsstíg. Nágrannar eru mjög ósáttir. Nýbyggingu breytt úr íbúðarhúsi í gistihús. Meirihluti borgarstjórnar sér ekki málefnaleg rök fyrir neitun.

Rekstur hafinn. „Af hverju er það í boði að hefja þessa starfsemi án leyfa?“

Fréttaskýring „Bygging var kynnt sem fjölbýlishús þar sem ætti að vera íbúabyggð fyrir stuttu, þegar til stóð að byggja hana. Var þessi kynning lygi allan tímann? Er ekkert að marka yfirlýsingar borgarinnar um að hætta að bæta við gistiheimilum og hótelum í miðborgina?“ Þetta segir í athugasemd sem Guðrún Dalía Salómonsdóttir gerði vegna breytinga á skipulagi, sem heimilar að íbúðarhúsi við Barónsstíg verði breytt í gistihús. Margir nágrannar gera athugasemdir við breytingarnar. Allir eru ósáttir.

Bíða ekki eftir leyfinu

Það sem meira er að þegar er hafinn rekstur gististaðar, þ.e. áður en leyfi fæst. „Eigendur hússins virðast einnig vera sannfærðir um að leyfið sé eitthvað formsatriði því nú þegar er hafin öflug gististarfsemi í húsinu með öllu því ónæði sem því fylgir. Eru engar afleiðingar fyrir leyfislausa gististarfsemi. Af hverju er það í boði að hefja þessa starfsemi án leyfa?“ Þessa athugasemd skrifaði Aðalsteinn Jörundsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Íbúum fækkar, það fækkar í skólum og leikskólum. Það er alkunna að það vantar íbúðarhúsnæði í miðbæinn. Samkvæmt stefnu borgarinnar er verið að flytja hótel og gistiheimili út fyrir miðbæinn.“

Framsókn ein á móti

Mál var tekið fyrir í borgarráði þar sem fulltrúar meirihlutans samþykktu, Sjálfstæðismenn sátu hjá en Framsókn var á móti. „Við teljum það ljóst að aukning á hótel- og gistiuppbyggingu á kostnað íbúabyggðar innan miðborgarinnar er komin að þolmörkum eins og m.a. má lesa úr þeim fjölda athugasemda sem bárust við auglýsingunni. Mikilvægt er að bregðast við með endurskoðun á aðalskipulaginu án tafar enda stefnir í óefni. Hvað varðar frekari rökstuðning þá vísum við til tillagna sem við höfum sett fram á kjörtímabilinu er snúa að markmiðssetningu er varðar hóteluppbyggingu í miðborginni,“ segir í bókun Framsóknarflokksins.

„Því verður ekki neitað að það er áhyggjuefni að íbúum miðborgar hefur farið fækkandi vegna vaxandi umfangs gististarfsemi,“ segir í bókun meirihlutans. Þar segir líka: „Í gildandi aðalskipulagi er Barónsstígur skilgreindur sem aðalgata og því er erfitt að finna málefnaleg rök fyrir því að hafna því að deiliskipulagi á Njálsgötureit verði breytt í samræmi við það.“ Og svo þetta: „„Almenn stefnumörkun borgarinnar er samt sem áður skýr og miðar að því að vernda íbúabyggð í miðborginni, bæði með því að takmarka þar gististarfsemi og setja stífar reglur um hvar hópferðabifreiðar mega aka þar um og leggja.“

Íbúum fækkar

Það er rétt að íbúum í hverfinu hefur fækkað. Nemendum í Austurbæjarskóla hefur einnig fækkað. Íbúar hafa áhyggjur af þeirri þróun.

„Nú er farið að fækka tilfinnanlega bæði í leikskólum og Austurbæjarskóla því fjölskyldur eiga erfitt með að fá húsnæði inni í miðborginni. Hverfið tapar sínum sérkennum og andinn í hverfinu hefur beðið skaða,“ segir Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir og Hermann Karlsson segir: „Fjölgun gististaða og ferðamanna sé nú þegar búin að valda of miklum fólksflótta úr miðbænum. Þetta megi til dæmis sjá á fjölda barna í yngstu bekkjum Austurbæjarskóla.“

Þetta er hárrétt, nemum hefur fækkað og íbúum að sjálfsögðu líka.

Kvíða ónæðinu

Íbúar kvíða ónæði sem þau eru viss um að muni aukast. „Það er orðið mjög erfitt að fá bílastæði, ferðamenn draga á eftir sér töskur svo glymur í húsunum allan sólarhringinn. Þeir standa fyrir utan gististaði sína og reykja, henda stubbum út um allt og ónáða með skvaldri og hávaða. Íbúum fækkar, það fækkar í skólum og leikskólum. Það er alkunna að það vantar íbúðarhúsnæði í miðbæinn. Samkvæmt stefnu borgarinnar er verið að flytja hótel og gistiheimili út fyrir miðbæinn,“ segir Hilda G. Birgisdóttir.

Aðalsteinn Jörundsson er á svipuðum nótum: „Nú þegar er umferðin um Barónsstíg gríðarleg og ekki á það bætandi að fólksflutningabílar séu að stoppa þarna fyrir framan líka. Börn að leik í garði leikskólans munu heldur ekki njóta friðhelgi en ferðamönnum finnst oft gaman að taka myndir af börnum að leik.“

„Sorglegt er að sjá fjölskyldufólk hrekjast úr miðbænum til þess eins að fjölga ferðamönnum sem margir hverjir valda ónæði á öllum tímum sólarhringsins,“ segir Tania Sif Te Maiharoa.

Annað en kynnt var

„Þetta hús að Barónsstíg 28 reis eftir að friðað hús, sem var byggt 1905, var fjarlægt til að byggja fjölbýlishús með 8 íbúðum. Svo var í fyrra sótt um leyfi til að breyta húsinu í gististað í flokki II en var synjað,“ segir Aðalsteinn Jörundsson. Hann segir ennfremur: „Borgaryfirvöld hafi margsagt við ýmiss tækifæri að ekki verða gefin út fleiri leyfi fyrir hótelum og eða gistiheimilum í hverfinu.“

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir mótmælir í fyrsta lagi að Barónsstígur sé skilgreind sem aðalgata og hins vegar að enn sé gefið leyfi fyrir gistiheimili þegar það er orðin ofgnótt af slíku rými í miðbænum og það sem meira er þá er mikill húsnæðisskortur í borginni.

Leikskólinn Grænaborg er í næsta nágrenni við hinn umdeilda gististað.

Verktakar með offorsi

„Við sem búum í borginni ofbýður hversu auðvelt það er fyrir verktaka sem ráðast með offorsi að grónum byggðum og byggja og auglýsa gistiheimili og byrja að starfrækja þau áður en þeir fá leyfi. Ég vil að borgin stöðvi slíkar framkvæmdir,“ segir Petrína Rós Karlsdóttir.

„Það er allt of auðvelt að rífa niður íbúðarhúsnæði og byggja hótel með öllum þeim óþægindum sem það hefur fyrir okkur íbúa. Það gengur alls ekki að endalaust sé hægt að breyta eftir á til hvers er þetta skipulag.“

Hún heldur áfram: „Burt líka með alla þessa ólöglegu gistiaðsöðu sem verktakar og hrægammar skilgreina sem gistiheimili en eru ekkert annað en hótel í reynd.“

„Verktakar vaða uppi og eru að stela borginni okkar! Ætla yfirvöld að láta þetta viðgangast.“

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: