Þetta er ástæða þess að verkföll vofa yfir eina ferðina enn.
Björn Leví Gunnarsson skrifar fína grein í Moggann í dag. Þar rekur hann hvernig ríkisvaldið hefur komið að kjaradeilum.
„Að undanförnu hefur mikið verið talað um að hið opinbera eigi ekki að skipta sér af kjaradeilum, því lausn kjaradeilna liggi ekki hjá stjórnvöldum. Þrátt fyrir það hafa 14 sinnum verið sett lög á verkföll frá 1985. Ef það eru ekki opinber afskipti þá veit ég ekki hvað,“ skrifar hann.
Hann rifjar upp eigin reynslu:
„Árið 2004 var ég starfandi sem kennari í verkfalli. Stjórnvöld settu lög á verkfallið með því að vísa kjaradeilunni til gerðardóms ef ekki næðist niðurstaða innan skamms tíma. Afleiðingin var „samningar“ sem kennurum mislíkaði verulega og tilfinningin meðal kennara var að þeir hefðu verið beittir þvingunum.“
Birni er ofarlega í huga hinar miklu launahækkanir sem þingmenn og ráðherrar fengu:
„Það ætti kannski ekki að vera hlutverk stjórnvalda að leysa kjaradeilur en af því að stjórnvöld hafa oft skipt sér af með lögum á verkföll og af því að stefna stjórnvalda í efnahagsmálum treystir á að við séum sífellt að detta í lukkupottinn þá mun ekkert breytast. Stjórnvöld verða að tryggja grunnþjónustu, efnahagslegan stöðugleika fyrir þá sem eru verst staddir og vinna í áttina að sátt en ekki sundrungu. Það gerist ekki nema stjórnvöld sýni skilning á að það sé ósanngjarnt að þeirra laun hækki meira en allra hinna, allt frá hækkunum til þingmanna og ráðherra árið 2016 til hækkunar á launum forstjóra ríkisfyrirtækja á síðasta ári. Þetta er ástæðan fyrir því að verkföll vofa yfir eina ferðina enn.“