- Advertisement -

Verkalýðurinn og gáfaða fólkið

Sólveig Anna Jónsdóttir:
Það væri kannski hægt að skilja þessa undarlegu vitsmunafátækt hinna gáfuðu manna ef að risavaxinn undirliggjandi hugmyndafræðilegur ágreiningur innan ASÍ hefði farið hljótt eða jafnvel verið einhvers konar leyndarmál. En svo er nú aldeilis ekki.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar: Ýmsir gáfaðir menn með mörg háskólapróf hafa stigið fram í viðtölum á síðustu dögum, til að tjá sig um átökin í Alþýðusambandinu. Þar eru þeir eru beðnir um að útskýra og greina atburðina fyrir okkur vesalingunum.

Þessir gáfuðu menn eru oftast sammála hinnu bitru valdaklíku ASÍ: enginn málefnalegur ágreiningur, deilur snúast bara um persónur og völd.

Það væri kannski hægt að skilja þessa undarlegu vitsmunafátækt hinna gáfuðu manna ef að risavaxinn undirliggjandi hugmyndafræðilegur ágreiningur innan ASÍ hefði farið hljótt eða jafnvel verið einhvers konar leyndarmál. En svo er nú aldeilis ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En enginn þessara gáfuðu manna hefur svo mikið sem vikið einu orði að skrifum mínum…

Ég hef margoft tjáð mig um þennan ágreining um markmið og leiðir, í greinum í blöðunum og í Facebook-statusum. Allt er þetta efni aðgengilegt fræðimönnum, heimildir sem að þeir geta plokkað sem ávexti af trjánum og unnið úr með sínum fræðilegu vinnubrögðum. Í sumar gekk ég meira að segja svo langt að skrifa greinaflokk í fjórum pörtum þar sem ég rek í ítarlegu máli, með vísun í ótal dæmi, bæði rætur og birtingarmyndir þess hvernig ASÍ hefur misheppnast að laga sig að nýjum straumum í stærstu verkalýðsfélögum okkar lands.

En enginn þessara gáfuðu manna hefur svo mikið sem vikið einu orði að skrifum mínum um viðfangsefnið, það er líkt og að þau séu ekki til í þeirra augum. Það er mjög áhugavert og vekur áhugaverðar spurningar. Til dæmis um það hvers vegna svo gáfaðir menn, væntanlega með mikla gáfumanna-sjálfsvirðingu, gera í sífellu nokkuð sem þeir myndu væntanlega hneykslast á hjá nemanda sem væri í námskeiði hjá þeim til að læra hvernig á að vera gáfaður: Að mæta algjörlega ólesinn í próf, vera ekki búinn að lesa neitt heima, standa á gati og skila þar í stað svara einhverju babbli upphugsuðu á staðnum.

En hvað veit ég, kannski er þetta einmitt svona í hinum virðulegu menntastofnunum sem ég hef reyndar aldrei komið í enda ómenntuð láglaunakona.

Það gladdi mig þó að hlusta á Sigrúnu Ólafsdóttur félagsfræðing í dag í Silfrinu. Hún benti á að hugsanlega gæti verið einhver undirliggjandi málefna-ágreiningur. Kannski gæti hann snúist um það hvernig við eigum að skipta auði í samfélaginu og, eins og hún orðaði það, hversu mikinn ójöfnuð erum við til í að samþykkja. Sigrún vísaði til umræðunnar víða um um heim um það hvers vegna vinstriflokkar hafa skilið eftir láglaunafólk og farið í staðinn að hugsa mestmegnis um áhugamál millistéttarinnar. Sigrún dirfðist að velta því upp hvort þetta væri kannski ein „undiralda“ þess sem er að spilast út fyrir framan okkur.

Og hér er ein tilvitnun í Sigrúnu úr Silfri dagsins sem að mér fannst góð: „Kannski erum við að reyna að hugsa um hvort að viljum bæta samfélagið fyrir alla.“ Og: „Erum við að tala um einhverja grundvallarbyltingu á hvernig við skiptum lífsgæðum og hvernig við skiptum kökunni. Og þurfum við að byrja upp á nýtt?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: