Verkalýðsforystan gengin af göflunum
„Verkalýðsforystan virðist gengin af göflunum og þeirra skollaleikur ásamt ofurgjöldum hins opinbera hefur þrýst fyrirtækjum í að keyra áfram á undirmönnun og lítið má út af bregða. Líklega munu mörg fyrirtæki ekki lifa af næstu misseri. Stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð því ekki verður hægt að huga að neinum innviðum án verðmætaframleiðslu hjá fyrirtækjum og mannauði þeirra,“ segir Viðar Guðjohnsen í Moggagrein í dag.
Viðar er virkur í grasrót Sjálfstæðisflokksins. Hann er áhrifamaður þar. Viðar hefur ekki bara áhyggjur af efnahagsástandinu. Hann býr yfir mörgum hugmyndum um hvernig eigi að bregðast við. Greinar Viðars eru eftirtektarverðar
„Tryggingargjaldið er þung byrði og skammarlegt að menn hafi ekki lækkað það þegar atvinnuleysi var varla mælanlegt og allt í uppgangi. Ef það reynist rétt að stjórnmálamenn hafi ákveðið að lengja fæðingarorlof og hækka fæðingarorlofsstyrki í stað þess að lækka tryggingargjaldið þegar ráðrúm gafst þá er það mjög alvarlegt lýðskrum,“ skrifar Viðar og gefur Bjarna, formanni sínum, létt olnbogaskot.
Viðar heldur áfram að fjalla um tryggiungagjaldið og gengur lengra hvað það varðar en flestir hafa gert til þessa.
„Miðað við stöðuna sem við blasir þyrfti helst að afnema gjaldið á meðan þessir erfiðleikar ganga yfir, jafnvel þótt það kosti blóð, svita og tár. Annar möguleiki er að gjaldinu verði umbreytt með þeim hætti að launamenn greiði helming á móti launagreiðanda.“
Viðari þykir fasteignagjöldin allt of hátt og að það geti skipt sköpum í afkomu fyrirtækja.
„Augljóst er að á næstu misserum mun eiga sér stað þjóðnýting á atvinnuhúsnæði ef rekstur dregst saman og gjöldin haldast óbreytt. Slíkt er óviðunandi í ríki sem virðir eignarrétt manna.“
Lokataktur greinarinnar er svo þessi, óstyttur með öllu:
„Það er auðvitað erfitt og óábyrgt að svara ekki spurningunni um hvernig hægt væri að fjármagna slíkar aðgerðir. Byrja mætti á því að fækka bröggum og dýrum „kemstvallagötum“. Með öðrum orðum minnka óþarfa sem allir eru í raun sammála um að sé óþarfi. Vandamál hins opinbera er nefnilega ekki innflæðisvandi fjármagns heldur frekar að illa er farið með það fé sem hið opinbera fær frá þeim sem hefur skapað það fé. Að lokum er vert að minna á að þegar helmingur fólks fær það á tilfinninguna að það þurfi ekki að vinna því hinn helmingurinn muni sjá fyrir þeim og þegar vinnandi helmingurinn fær það á tilfinninguna að hann græði ekkert á því að sá fræjunum því einhver annar fær uppskeruna er stutt í manngerðan uppskerubrest.“