Vinnumarkaðurinn á Íslandi er eins og blóðugur vígvöllur vegna Kórónufaraldursins.
Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Verjum störfin, verjum heimilin, verjum kaupmáttinn og verjum launahækkanir í Lífskjarasamningum!
Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að almenni vinnumarkaðurinn á Íslandi er eins og blóðugur vígvöllur vegna Kórónufaraldursins, en á almenna vinnumarkaðnum starfa um 140 þúsund manns, en uppundir 60 þúsund starfa hjá ríki og sveitarfélögum.
Af þessum 140 þúsund manns sem starfa á almenna vinnumarkaðnum eru um 50 þúsund manns sem hafa nú þegar misst vinnuna að fullu eða hluta, sem er um 36% af þeim sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en sára fáir hafa hins vegar misst vinnuna hjá hinu opinbera.
Það er áætlað að milli 300 og 350 milljarðar af verðmætasköpun þjóðarinnar muni þurrkast út á þessu ári með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið hér á landi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á því að það eru atvinnugreinar á hinum almenna vinnumarkaði sem knýja samfélagið í heild sinni áfram með þeirri gjaldeyrissköpun sem á sér stað. En þær atvinnugreinar sem skapa mest af gjaldeyristekjum þjóðarinnar er ferðaþjónustan, iðnaðurinn og sjávarútvegurinn, en þessar greinar skapa um eða yfir 80% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við náum að reka okkar samfélag.
Núna þegar tannhjól þeirra fyrirtækja sem eru að skapa okkur mestu tekjurnar eru nánast við það að stöðvast, er ljóst að eitthvað verður að gera til að lágmarka skaðann og forða launafólki frá enn frekari uppsögnum.
Við Ragnar Þór hjá VR höfum sagt að eitt helsta verkefni okkar núna sé að verja störfin, verja kaupmáttinn, verja heimilin og síðast en ekki síst að verja þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um. En núna um síðustu mánaðamót hækkuðu launataxtar um 24.000 kr. og um næstu áramót eða eftir 8 mánuði eiga launataxtar að hækka aftur um 24.000 kr.
Núna liggur fyrir ef marka má ummæli frá Samtökum atvinnulífsins í Morgunblaðinu í morgun að allt eins líklegt sé að SA muni segja samningum upp í september þegar endurskoðun á samningum fer fram og ef það gerist þá myndi launahækkunin sem á að koma til framkvæmda um næstu áramót falla niður.
Ef maður er bara alveg heiðarlegur þá eru umtalsverðar líkur á að Samtök atvinnulífsins muni segja samningum upp þegar endurskoðun á kjarasamningunum fer fram í haust og okkar fólk verður þá af þeirri launahækkun sem á að koma um næstu áramót. Við þessar fordæmalausu aðstæður verðum við að verja að þær launahækkanir sem eiga að koma til framkvæmda og það er hægt að gera með því að eins og við Ragnar hjá VR höfum lagt til þ.e.a.s. lækka tímabundið mótframlagið í lífeyrissjóð.
Með þessari leið, sem enginn myndi finna fyrir núna, yrði hægt að verja fleiri störf, verja kaupmátt og síðast en ekki síst verja þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um.
Ég tel það algjört glapræði að láta reka á reiðanum og gera eins og strútarnir stinga hausnum í sandinn þegar hætta steðjar að, því við getum ekki horft upp á að félagsmenn okkar séu í fullkomnu öryggisleysi hvað varðar atvinnuöryggi, lífsafkomu og hvort umsamdar launahækkanir skili sér vegna Kórónufaraldursins.
Eitt af aðalhlutverkum stéttarfélaga er að verja atvinnuöryggi og lífsafkomu okkar félagsmanna og við getum sýnt ábyrgð og lagt okkar lóð á vogarskálarnar með því að lækka tímabundið mótframlag í lífeyrissjóðina. Með því sláum við margar flugur í einu höggi eða eins og áður hefur komið fram varið fleiri störf, varið kaupmáttinn, varið launahækkanir og Lífskjarasamninginn, en að gera ekki neitt kallar á færri störf, minni kaupmátt, og okkar félagsmenn missa hugsanlega þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um.
Að sjálfsögðu yrðu stjórnvöld að koma að svona samkomulagi með því að setja þak á neysluvísitöluna tímabundið til að verja heimilin sem og standa við þau loforð sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum eins og hlutdeildarlánin og stíga þétt skref til afnáms verðtryggingar.
Að sjálfsögðu getur opinberi markaðurinn ekkert setið hjá á meðan þessar hamfarir ganga yfir launafólk á hinum almenna vinnumarkaði, án þess að taka með einum eða öðrum hætti þátt í aðgerðum til að lágmarka skaða þjóðarbúsins. Allur þessi skellur verður ekki settur einvörðungu á herðar launafólks á almenna vinnumarkaðnum, svo mikið er víst.
Verjum störfin, verjum heimilin, verjum kaupmáttinn og verjum launahækkanir í Lífskjarasamningum!