Sveinn Andri Sveinsson: „Það er venja hjá okkur lögmönnum sem sinnum verjendastörfum að renna reglulega yfir dagskrá dómstólanna til að sjá hvort einhver af okkar skjólstæðingum eigi að mæta í dómi. Nú skilst mér að Héraðsdómur Reykjaness hafi ákveðið að hætta birtingu nafna á sakborningum á dagskrá réttarins þegar um þingfestingar er að ræða. Ástæðan er mikið ónæði frá ákveðnum lögmanni úti í bæ sem hringir í alla sem koma fyrir á dagskrá réttarins og býður sig fram sem verjanda.
Ég færi viðkomandi engar þakkir frá okkur kollegum hans fyrir þetta óhagræði sem hann veldur.“
Ómar R. Valdimarsson: „Tvistur, þristur, Jesús Kristur.
Dómstóll ákveður upp á sitt einsdæmi að afmá nöfn sakborninga úr dagskrá sinni, af því að lögmaður vogar sér að hafa samband við einstaklinga sem ekki eru skráðir með verjanda í þeirri sömu dagskrá og bjóða fram þjónustu sína.
Hverjir eru það sem munu líða fyrir það?
Jú, helst einstaklingarnir sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Mjög stór hópur einstaklinga ratar inn í dómskerfið án þess að njóta nokkurn tíma aðstoðar verjanda. Af hverju í veröldinni ættu lögmenn ekki að geta boðið þeim þjónustu sína?
Sú viðleitni lögmanna að bjóða fram þjónustu að eigin frumkvæði til einstaklinga sem ákærðir hafa verið leiðir til þess að fleiri sakborningar njóta aðstoðar verjenda þegar hið opinbera sækir að þeim. Í því felst aukið réttaröryggi og skyldi engin velunnari réttarríkisins gagnrýna slíka viðleitni.
Þeir fiska sem róa. En auðvitað skal þetta lögmál ekki gilda í lögmannsstétt, þar sem gamlir hagsmunaaðilar vilja fá að verjast markaðslögmálunum með kjafti og klóm.“