Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, efast um að viðskiptabankarnir slaki á klónni, falli frá eða lækki þau gjöld sem þeir hafa komið á og innheimta hjá viðskiptavinum sínum.
„Ég held að það sé nú engar líkur á því að fjármálafyrirtækin fari að draga úr þeim gjöldum, í það minnsta sjálfviljug, sem þau geta innheimt af viðskiptamönnum sínum. Ég hef alla vega ekki orðið var við vilja til þess. Það kann vel að vera að í framtíðinni sjáum við það,“ sagði hann í þingræðu.
Freistingin til staðar
„Jafnvel þó að hagkvæmni muni aukast þá held ég að freistingin til þess að taka eins mikið af gjöldum og aukagjöldum og hægt er verði til staðar,“ sagði hann. „Því hljótum við að spyrja okkur og kannski er rétt að spyrja ráðherra að því hvort það sé ástæða til þess að fara í gegnum þær heimildir fjármálafyrirtækja sem þau hafa til þess að rukka viðskiptavini sína um hin og þessi gjöld, þetta er orðinn mikill frumskógur gjalda sem er hægt að innheimta.“
Höfum áhyggjur
Ráðherrann sem Gunnar Bragi beindi orðum sínum til, var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem sagði: „Það er rétt sem háttvirtur þingmaður segir, það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að aukinni skilvirkni sé skilað í betri viðskiptakjörum, en það er hins vegar erfitt að halda öðru fram en að t.d. bankaskatturinn sem við höfum verið með hér undanfarin ár sé annað en íþyngjandi og hann sé til bjögunar á samkeppnisskilyrðum á markaði.“