Ef þetta verður raunin getur verkalýðshreyfingin byrjað að pakka saman.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Ef að peningarnir okkar verða notaðir til að bjarga Icelandair án þess að samið verið við flugfreyjur og þær settar út á gaddinn, þá eru íslenska ríkið og lífeyrissjóðirnir að nota peningana okkar til að brjóta niður stéttarfélög og samningsrétt þeirra á vinnumarkaði. Og þar með að gera tilraun til að eyðileggja verkalýðshreyfinguna. Þannig yrðu lífeyrisréttindum okkar og sköttunum sem við borgum varið til að mölva niður mátt hinna vinnandi stétta. Ef þetta verður raunin getur verkalýðshreyfingin byrjað að pakka saman. Þetta er rosalega alvarlegt. Þá er hætta á að Flugfreyjufélagið verði bara byrjunin á niðurbrotinu.
Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem stjórnvöld eru hvött til að styðja ekki Icelandair með sameiginlegum sjóðum nema réttindi starfsfólks séu virt. Ljóst sé að það sé ekki í þágu íslensks starfsfólks að lífeyrir sé notað til að styðja fyrirtæki sem grefur undan samningsrétti og lífskjörum launafólks. Ekki verði séð hvernig lífeyrissjóðir geta virt eigin siðareglur og fjárfestingarstefnu en um leið tekið þátt í hlutafjárútboði félags sem grefur undan hagsmunum launafólks á íslenskum vinnumarkaði. „Icelandair er nauðugur sá kostur að virða sitt starfsfólk og ganga til kjarasamninga við stéttarfélög þeirra ef fyrirtækið ætlar að vera húsum hæft í íslensku samfélagi.“
Að sjálfsögðu á það ekki að vera fræðilegur möguleiki að Icelandair geti gert þetta. Að það komi yfirleitt til greina er hneyksli. Af hverju er ríkisstjórnin ekki búin að gefa það út að þetta komi ekki til greina, þannig að forstjóri Icelandair geti ekki viðrað þann möguleika í hverri fréttinni á fætur annarri í fjölmiðlum að kannski verði gripið til annarra aðgerða ef flugfreyjur/þjónar vilja ekki beygja sig undir tilboð fyrirtækisins.