„Ef leikmenn eru taldir góðir ráðunautar, þá er það ráð mitt að heilbrigðisráðherra leysi landlækni og sóttvarnarlækni frá störfum og ráði Arnar Þór Jónsson lögmann sem landlækni og Vilhjálm Árnason, lögfræðing og alþingismann, sem sóttvarnarlækni. Hvorugur er læknislærður, en báðir eru miklar frelsishetjur og góðir skrifstofumenn.
Tekið skal fram að ein mesta frelsisskerðing sem ég verð fyrir er þegar ég er skyldaður til að spenna bílbelti áður en ég ek af stað í bifreið minni, sem ég hef verið skyldaður til að fara með til skoðunar,“ skrifar þingmaðurinn fyrrverandi, Vilhjálmur Bjarnason, í Mogga dagsins.
„Það hefur enginn óskað þess að yfir gangi landfarsótt. Sóttvarnir eru um margt áhugavert viðfangsefni og prófsteinn á kenningar Johns Stuarts Mills um frelsi. Á sama hátt er hegðun starfsmanna í fjármálafyrirtækjum, sem hegðuðu sér með glæpsamlegum hætti í regluvæddum fjármálafyrirtækjum, dæmi um reglusniðgöngu með frelsi að leiðarljósi.
Viðnámsþol ríkissjóðs á liðnum tveimur árum stafar af frelsisskerðingum frá árunum eftir hrun. Þær frelsisskerðingar sköðuðu ekki almannahag.
Sóttvarnarlög eru angi af stjórnskipulegum neyðarrétti og meðalhófi. Lögfræðilegar æfingar fyrir dómstólum bæta ekki almannahag og dómstólar eru ekki leiksvið.
Vera má að ekki sé jafnræði með læknum og lögfræðingum í samtölum um sóttvarnir. Læknar vita meira um veirur og minna um lögfræði, enda þótt lögfræði sé lítið annað en heilbrigð skynsemi og ályktunarhæfni. Lögfræðingar vita lítið um veirur en eiga að hafa heilbrigða skynsemi. Á það skortir stundum.“