Það þarf engan speking til að sjá að í óefni stefnir.
Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur skrifaði merka grein sem birt var í Mogganum í gær. Þorsteini eru umhverfismálin, og hvert stefnir, hugleikinn. Þorsteinn dregur upp ákveðna mynd af því sem hann telur vera mesta vandann.
„Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns og snúa þróuninni við, missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks. Þá verða menn að sætta sig við orðinn hlut og búa sig sem best undir það sem koma skal: breytt veðurfar, bráðnun jökla, hækkandi sjávarstöðu, sívaxandi flóttamannastraum, þverrandi auðlindir og alls kyns mengun sem óhjákvæmilega leiðir af fjölgun fólks. Menn ættu ekki að láta blekkjast af þeirri tálsýn að sársaukalitlar aðgerðir muni leysa þann stórfellda vanda sem við okkur blasir.“
Skoðum aftur skrif Þorsteins:
„Kona nokkur í Þýskalandi, Verena Brunschweiger, menntaskólakennari á fertugsaldri, hefur vakið talsverða athygli og nokkurn úlfaþyt með bók sem hún gaf út nýlega þar sem hún hvetur fólk til að draga úr barneignum og segist sjálf ætla að neita sér um að eiga barn. Bendir hún á tölur sem sýni að slík stefna yrði miklu áhrifameiri en að draga úr flugferðum eða selja bílinn. Ólíklegt verður að þó teljast að Verena fái miklu breytt. Meðfædd hvöt fólks til barneigna er sterkari en svo að fortölur sem þessar hafi veruleg áhrif.“
Þorsteinn bendir sterkt á að betur þarf að gera.
„Þær aðgerðir í umhverfismálum sem menn hafa rætt um í alvöru eru góðra gjalda verðar. Þær munu þó ekki ná tilgangi sínum ef ekki er tekist á við rót vandans sem við er að glíma, en það er fólksfjölgunin í heiminum. Mannfjöldi á jörðinni er nú sagður 7,7 milljarðar og hefur þrefaldast á síðustu 70 árum. Það þarf engan speking til að sjá að í óefni stefnir. Eina þjóðin sem reynt hefur að stemma stigu við fólksfjöldanum er Kínverjar sem gáfu út tilskipun þess efnis árið 1980 að fjölskyldur mættu aðeins eiga eitt barn. En jafnvel í því mikla stjórnvaldsríki sem Kína er reyndist þetta illframkvæmanlegt og hafði reyndar þær ófyrirséðu afleiðingar að drengjum fjölgaði mjög umfram stúlkur. Frá árinu 2015 hefur hjónum í Kína verið heimilt að eiga tvö börn. Er því spáð að öllum hömlunum á barneignum verði senn aflétt því að stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af fjárhagslegum afleiðingum þess að ungu starfandi fólki fækki hlutfallslega meðan öldruðum fjölgi.“