Stjórnmál

Verðum að geta treyst búðavigtum

By Miðjan

July 01, 2014

Neytendur „Mikilvægt er fyrir neytendur að geta treyst því að mælingar séu réttar og að löggilding mælitækja sé í gildi,“ segir Neytendastofa. Tilefnið er að á síðasta ári voru skoðaðar og samþykktar 640 vogir, sem eru notaðar til að selja vörur til neytenda. Af þeim 640 vogum sem skoðaðar voru þurfti að endurstilla 186 þeirra við löggildinguna. Ekki kemur fram hver skekkja allra þessara voga var, hvort seljendur eða neytendur sköðuðust af rangindinum og þá hvort viðurlögum hafi verið beitt.

„Það er hagur neytenda að skoða hvort viðkomandi vog sem verið er að nota sé með gilda löggildingu. Þá á löggildingarmiðinn að vera sýnilegur fyrir neytendur,“ segir Neytendastofa.

Í frétt Neytendastofu segir: „ Vogir sem vigta undir 100 kg og notaðar eru til að selja vörur til neytenda eiga að hafa sýnilegar upplýsingar um vigtunina. Neytendur eiga að geta séð greinilega útreikning verðs á þeirri vöru sem keypt er. Þetta þýðir m.a. að neytendur eiga að geta séð greinilega á skjá niðurstöður vigtunar við búðarkassavogir og við afgreiðslu úr fisk- og kjötborðum.“