„Við verðum að geta ráðið okkur sjálf. Við þurfum ekki fleiri séríslenskar lausnir, ekki fleiri heimsmet sem flytja fé til þeirra ríkustu, valda verðbólgu og rýra lífskjör okkar til frambúðar. Engar töfralausnir, takk, ekki stærri bólur, ekki áframhald hafta og gengisvandræða. Það þarf bara þær lausnir sem best hafa dugað í nágrannalöndum okkar þegar kreppt hefur að.“
Þetta er brot úr ræðu Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar , á Alþingi í gærköld.
Hann talaði um hvað Samfylkingin vill gera og sagði:
„Við í Samfylkingunni bjóðum upp á sígildan leiðarvísi sem reynst hefur vel, samfélagssýn norrænnar jafnaðarstefnu sem boðar ábyrgt, opið markaðshagkerfi, einstaklingsfrelsi, efnahagslegan stöðugleika og félagslegt réttlæti. Markmið jafnaðarstefnunnar er að beita ríkisvaldinu í almannaþágu, gefa öllum tækifæri, auka vald fólks yfir eigin lífi, styðja þá sem minna hafa til sjálfstæðis og tryggja frelsi fólks undan kúgun feðraveldis, auðs eða ríkisvalds.“
Erum höfuðógn ríkisstjórnarinnar
„Það er ekki nóg að meina vel ef leiðarvísinn skortir. Jafnaðarstefnan er sú rót sem Samfylkingin sækir til næringu og styrk. Jafnaðarstefnan ógnar kyrrstöðu og hún ógnar sérhagsmunum því að hún krefst og kallar á almennar leikreglur. Hún ógnar möguleikum ráðandi afla til að skammta sér aðstöðu, hygla vildarvinum og deila með sér völdum. Það er vegna jafnaðarstefnunnar sem Samfylkingin er höfuðógn ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er öll gagnrýni kölluð samfylkingarspuni og þess vegna eru aðrir flokkar uppnefndir sem útibú Samfylkingarinnar. Við lítum á slík ummæli sem hrós úr ranni afturhaldsaflanna. Og við þökkum hrósið.“
Jón Gnarr á mikið hrós skilið
Fyrr í ræðu sinni hafði Árni Páll vikið að pólitískri stöðu í landinu, nú þegar skammt er til byggðakosninga. Hann talaði um kosningarnar 2010 og sagði meðal annars:
„Fyrir fjórum árum var almannarómur að framboð Besta flokksins væri til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Þegar Jón Gnarr býr sig nú undir að kveðja hið pólitíska svið er öllum ljóst að aðrir hefðbundnari stjórnmálamenn hafa frekar orðið til þess að skapa pólitíska upplausn undanfarin ár en hann og hið yfirlýsta grínframboð. Það ætti að verða okkur öllum umhugsunarefni, ekki síst í þessum sal. Jón Gnarr á mikið hrós skilið. Hann áttaði sig á því að stjórnmál eru lifandi samtal við fólk um hagsmuni þess, aðstæður og hugsjónir. Því hefur hann sinnt með prýði. Ég þakka Jóni fyrir framlag hans og afar ánægjulegt samstarf. Við í Samfylkingunni höfum lært mikið af því samstarfi og hér á þingi geta sjálfsagt margir enn lært að losa svolítið um bindishnútinn og láta formið víkja fyrir efninu.“